Þegar kollan gaf skít í mig með kungfu-sparki
Augnablik með Jóni Steinari
Það er margt sem maður reynir og rekur sig á sem ljósmyndari. Það hefur um árabil verið þannig hér í kirkjugarðinum í Grindavík að æðakollur hafa gert sig heimakomnar, fundið sér hreiðurstað, verpt og komið upp sínum afkvæmum. Allt í sátt við menn, lifandi og gengna.
Það hefur verið árviss viðburður hjá undirrituðum að fara í garðinn að vori og heilsa upp á gengna ástvini og einnig þessa verndara þeirra og vorboða, sjálfar æðakollurnar.
Í nokkur skipti hafði verið kolla sem verpti á sama stað og var svo spök og róleg að þurfti að lyfta henni af hreiðinu til að skoða undir og setja hana svo til baka aftur í sömu stöðu.
Í einni af þessum skoðunarferðum mínum kom upp forvitni um hvað mörg egg væru undir og mynda herlegheitin í bak og fyrir.
Þar sem ég nálgaðist kolluna, sem var á sínum stað áleit ég auðvitað að þarna væri sú spaka og geðgóða komin enn eitt árið – en þar skjöplaðist mér heldur betur og ballið byrjaði!
Af þvílíkri varfærni og nærgætni teygði ég mig í átt að henni til að strjúka henni blítt og svo í framhaldinu, ef mér tækist vel upp með klappið, kíkja undir hana. Nema hvað, þegar ég er rétt kominn með höndina að henni þá hvæsir hún og goggar í hönd mína. Ég var nú alveg fullviss um að þetta væri nú fullmikil dramatík í einni kollu og held mínu striki, nema hvað að þá tekur hún þetta svaka stökk að mér með hvæsi, kungfu-sparki og 360° snúningi þannig að sjálfur Bruce gamli Lee hefði verið stoltur af.
Á þessu augnabliki hefði sjálfsagt skynsamari maður en aulinn ég látið sér segjast og látið sig hverfa – en ekki ég. Aftur bý ég mig undir að klappa henni og aftur tekur hún þessa snilldarrútínu sína og undirritaður sannfærist ennfrekar um óþarfa dramatík og geðillsku þessarar kollu, hún hlýtur í ofanálag við allt annað að vera femínisti. Það er nú ekki eins og þetta sé áreitni eða þannig, einungis einföld náttúruskoðun.
Jæja, nú var gerð tilraun no. 3 til að fá þetta úrilla illfygli til að þýðast mig og á alveg sama hátt og áður þá tekur hún hvæsið, stökkið með kungfu-sparkinu, nema hvað að núna þegar hún hefur snúið sér í 180° og með skutinn í áttina að mér að þá opnar hún allar lúgur upp á gátt og hreinlega gefur skít í kallinn, klárar sinn snúning, lendir fimlega og leggst á sín egg.
Eftir stóð undirritaður útskitinn frá öxlum og niður úr. Lyktinni verður aldrei, og ég meina ALDREI, lýst með orðum hversu vond hún var, því þau orð eru einfaldlega ekki til.
Ég verð nú að viðurkenna að í eitt augnablik hugsaði ég henni þegjandi þörfina þar sem ég stóð þarna einn og útskitinn í kirkjugarðinum en svo hugsaði ég hversu mikið hugrekki þetta væri hjá henni og auðvitað hárrétt viðbrögð. Hún er að verja sína dýrmætustu eign, afkvæmin sín, og gerði það lystavel. Því aulinn ég hraktist sneyptur, útskitinn og illa lyktandi í burtu.
Um leið og ég tek hatt minn ofan fyrir þessari kollu, og einnig öllum öðrum „kollum“ í dýraríkinu, þá ætla ég að þakka mínum sæla fyrir það að það var ekki nokkur manneskja á ferð í kirkjugarðinum akkúrat á þessum tíma. Það hefði sjálfsagt farið fyrir brjóstið á einhverjum að sjá mann afklæðast þarna.
Þannig fór um „sjóferð“ þá.
Jón Steinar Sæmundsson.