Það er komið að mér
Það er komið
að mér!
Það voru mjög ánægjuleg tíðindi sem bárust mér á golfvellinum en í miðju upphafshöggi á sjöundu holu í Leirunni fann ég símann minn titra (nú vita strákarnir af hverju „drævið“ fór ekki fram yfir kvennateig). Óttaðist fyrst að þetta væri konan að segja mér að taka bara níu holur en aldeilis ekki, heldur voru þetta falleg skilaboð um mætingu í bólusetningu, Jansen bóluefnið takk fyrir túkall. Ein sprauta og málið dautt, ég verð frjáls fljótlega.
Þrátt fyrir nokkuð dapra spilamennsku á vellinum þá bjargaði þetta hringnum algjörlega og jú auðvitað afar góður félagsskapur. Golfklúbburinn Kvíðir hóf nefnilega leik formlega síðasta mánudag, yndislegur vorboði. Sigurður Ingimundarson, hinn geðþekki Keflvíkingur, pakkaði okkur Njarðvíkingunum saman í holli sem var heilt yfir frekar ryðgað. Ég var hins vegar ekkert að stressa mig á því enda kominn með bólusetningar-sms í símann og Siggi er bara fjandi efnilegur kylfingur! Gleðin var bara svo mikil og varla hægt að vera tapsár enda hefur maður beðið eftir þessu lengi (ekki að spila með Sigga heldur bólusetningunni).
Í mínum huga er nefnilega þessi bólusetning upphafið á endinum á þessu Covid-fári sem hefur veitt okkur ómælda ógleði síðasta árið. Bólusetning á Ásbrú, það er komið að okkur yngra fólkinu! Hef reyndar farið áður þarna upp eftir t.d. með móður mína í þessar sprautur og hún stóð sig eins og hetja. Það er mikil fagmennska sem einkennir allt starf þarna í bólusetningarmiðstöðinni á Ásbrú, alveg magnað og verðskuldað hrós til ykkar allra. Eldri menn í kring um mig sem hafa farið, eins og t.d. ritstjóri Víkurfrétta, hafa ekki kvartað yfir þessu. Þannig ég hræðist þetta alls ekki og það er tilhlökkun í gangi. Það eina sem pirrar mig aðeins í dag eru ákveðnir fjölmiðlar. Já, mér finnst þeir sumir birta allt of mikið af neikvæðum fréttum um faraldurinn t.d. frá Indlandi og Brasilíu. Geri ekki lítið úr þeim hörmungum sem þar eru í gangi en væri ekki skemmtilegra að leggja meiri áherslu á fréttir frá þeim löndum þar sem bólusetningar ganga vel og lífið er að komast í réttar skorður á nýjan leik. Fullt af stöðum þar sem farið er að sjást til sólar í þessu öllu. Einblína frekar á þetta jákvæða í stað þess að hamra alltaf á því neikvæða, okkur veitir ekki af. Það er nefnilega hægt að finna eitthvað jákvætt í flestu, líka þegar maður hefur verið rasskelltur af Keflvíking uppá golfvelli.
Gleðilegt sumar!
Örvar Þór Kristjánsson.