Það er af sem áður var
Þá er júnímánuður kominn í gang og það þýðir að sjómannahelgin 2023 er búin. Það er af sem áður var, þegar það voru hátíðarhöld í svo til öllum höfnum á Suðurnesjum; Vogum, Sandgerði, Keflavík og Grindavík.
Núna er einungis haldið upp á þessi hátíð í Grindavík með Sjóaranum síkáta. Kemur kannski ekki á óvart því Grindavík er núna stærsti útgerðarstaðurinn á Suðurnesjum þó svo að bátarnir séu ekki margir þar, þá eru þeir öflugir og reyndar er það nú þannig að allir stóru bátarnir og togararnir eru í eigu fyrirtækja. Enginn stór bátur er í eigu einstaklinga.
Kannski er stærsti báturinn í einstaklingseigu í Grindavík Hraunsvík GK sem hefur verið gerður út frá Grindavík síðan árið 2007. Öll árin sem Hraunsvík GK hefur verið gerður út frá Grindavík hefur hann stundað netaveiðar – þangað til núna. Núna er báturinn komin á handfæri og er í hópi með stærstu færabátum landsins og einn fárra stálbáta sem gerðir eru út á handfæri.
Hraunsvík GK hefur landað 10,6 tonnum í tíu róðrum á færum en báturinn er á strandveiðum og síðustu tveir róðrarnir voru nokkuð góðir, samtals um 4,2 tonn og af því var ufsi um 3 tonn.
Ufsaveiðin í færin er að byrja og tveir stórir bátar hafa bæst við færaflotann, báðir í eigu Stakkavíkur. Þetta eru bátarnir Hópsnes GK og Geirfugl GK. Báðir bátarnir hafa landað og var Hópsnes GK með 6,1 tonn í einum róðri og af því var ufsi 5,4 tonn og Geirfugl GK með 6,9 tonn og af því var ufsi 5,5 tonn.
Geirfugl GK hefur ekki mikið verið á handfærum því hann hefur að langmestu leyti róið á línu. Báturinn var þó á makrílveiðum árið 2014 og hét þá Guðbjörg GK 666 og var þá líka í eigu Stakkavíkur.
Hópsnes GK hefur aftur á móti aldrei verið á handfæraveiðum eftir að Stakkavík eignaðist hann árið 2021. Þar á undan hét báturinn Katrín SH og stundaði netaveiðar að mestu en af og til fór á handfæri yfir sumarið.
Adda Afa GK hefur gengið vel á ufsanum og hefur landað í júní alls 10,7 tonnum í tveimur róðrum, af því er ufsi 10,3 tonn.
Reyndar var veðráttan núna í enda maí mjög slæm, og reyndar furðulega slæm miðað við árstíma, en júní byrjar vel og þessi gríðarstóri handfærafloti, sem er að mestu í Sandgerði, hefur þá komist út og veiði bátanna er búin að vera góð. Bátarnir hafa náð skammtinum sínum nokkuð auðveldlega og þeir bátar sem hafa farið áleiðis í ufsasvæðin, sem eru í kringum Eldey, hafa geta náð ufsa sem meðafla með þorskinum.
Það yrði oft langt mál að telja upp alla bátana sem landa í Sandgerði en þegar allir eru á sjónum eru þetta um 60 bátar sem eru að landa þar.
Nesfisksdragnótabátarnir hafa verið að róa núna í byrjun júní og aflinn hjá þeim hefur verið nokkuð góður. Allir þrír hafa þeir verið á veiðum á Hafnarleirnum og áleiðis að Eldey, á svæði sem virðist alltaf gefa fisk, en saga dragnótaveiða frá því svæði spannar orðin vel yfir 60 ár.
Ég hef nú ekki kannað það nákvæmlega hvaða bátur hóf fyrstu dragnótaveiðar á því svæði héðan frá Suðurnesjum en Baldur KE var nú með fyrstu bátunum sem hóf veiðar með dragnót, hvort hann sé sá allra fyrsti þarf ég að grafa aðeins í gögnum til að fá úr því skorið hvaða bátur hafi verið fyrstur.