Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Pistlar

Talsvert um að vera í höfnunum á Suðurnesjum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 27. september 2024 kl. 06:13

Talsvert um að vera í höfnunum á Suðurnesjum

September líður áfram og stutt í að þessum fyrsta mánuði nýs kvótatímabils ljúki.

Í höfnunum á Suðurnesjum er búið að vera nokkuð ágætt um að vera, sérstaklega í Keflavík og í Sandgerði. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í Keflavík hafa netabátarnir verið að landa, sem og Ásdís ÍS sem er á dragnót í Faxaflóanum, og í Sandgerði hefur verið nokkuð fjölbreytt um að vera. Færabátar, línubátar, dragnótabátar og síðan kom Pálína Þórunn GK þangað.

Línubátarnir eru flestallir ennþá á Austur- og Norðurlandi, að undanskilinni Huldu GK sem kom suður til Sandgerðis en báturinn var búinn að vera á Skagaströnd.

Dúddi Gísla er búinn að við veiða norðvestur af Sandgerði og hefur gengið ágætlega, kominn með 51 tonn í níu róðrum og mest 7,3 tonn í róðri. Nokkuð blandaður afli en af þessum afla eru 20 tonn af þorski, 17 tonn af ýsu og 12 tonn af löngu.

Ef við kíkjum á bátana sem eru fyrir austan þá er Gísli Súrsson GK með 25 tonn í fjórum róðrum, Vésteinn GK með 62 tonn í níu róðrum, Auður Vésteins SU 86 tonn í ellefu róðrum og Fjölnir GK 94 tonn í átta. Gísli, Vésteinn GK og Auður eru allir á Stöðvarfirði, Fjölnir GK á Neskaupstað.

Fyrir norðan eru flestir bátanna á Skagaströnd. Þar er t.d. Gulltoppur GK kominn með 42 tonn í átta róðrum, Geirfugl GK 61 tonn í níu róðrum, Hópsnes GK 62 tonn í tólf róðrum og Óli á Stað GK með 122 tonn í sextán róðrum.

Margrét GK er ennþá á Hólmavík og er komin með 78 tonn í ellefu róðrum.

Það er nokkuð merkilegt með Óla á Stað GK, en Stakkavík ehf. sem gerir út bátinn sem og Gulltopp GK, Geirfugl GK og Hópsnes GK, að Stakkavík fékk glænýjan bát sem hefur legið við bryggju í Njarðvík. Sá bátur heitir Guðbjörg GK 6 og stóð til að hann myndi fara á veiðar núna á þessu fiskveiðiári.

Báturinn hefur aftur á móti ekkert farið á veiðar og fékk til dæmis engum kvóta úthlutað núna.  Samkvæmt heimildum mínum þá eru nokkur atriði sem hafa verið sett út á við bátinn, til dæmis að báturinn er verulega þröngur – mun þrengi að innan heldur en til dæmis Óli á Stað GK.

Hvað svo sem verður þá væri nú flott að sjá þennan bláa bát fara til veiða, því að sjá svona utan frá þá er þetta nokkuð flottur bátur.

Reyndar má nefna að þetta er þriðji báturinn í eigu Stakkavíkur sem hefur heitið þessu nafni, Guðbjörg. Báturinn sem í dag heitir Geirfugl GK hét um tíma Guðbjörg GK. Reyndar í ekki langan tíma, hluta af árinu 2013 og fram á árið 2015.

Aftur á móti þá gerði Stakkavík út einn af Kínabátunum, bát sem var eini Kínabáturinn sem var hannaður til þess að stunda veiðar með netum og hét sá bátur fyrst Ársæll Sigurðsson HF, þessi bátur var líka fyrsti báturinn af þessum Kínabátum sem var yfirbyggður. Árið 2016 eignaðist Stakkavík ehf. bátinn og fékk hann þá nafnið Guðbjörg GK. Var báturinn gerður út fram í júlí árið 2019 og hefur síðan legið í slippnum í Njarðvík. Í dag heitir báturinn Oddbergur GK og eigandi hans er Skipasmíðastöð Njarðvíkur.

Sá bátur er töluvert mikið stærri en nýja Guðbjörg GK því að nýi báturinn er krókabátur og um fjórtán metra langur en Oddbergur GK er 25 metra langur og því aflamarksbátur.