Sumarboðinn ljúfi er stálbátur
Þá er það þetta klassíska. Þetta með vorboðann ljúfa sem allir segja að sé lóan. Jú, kannski fyrir marga. Hjá Suðurnesjamönnum er það nú reyndar ekki fugl sem boðar vorkomuna eða þá sumarkomuna, heldur er það dragnótabáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík.
Undanfarin ár þá hefur áhöfn bátsins tekið ansi duglega á því í maí ár hvert og klárað kvótann sem á bátnum er og maí 2021 var enginn undantekning, því þeir lönduðu yfir 400 tonnum og urðu aflahæstir í maí hjá dragnótabátunum – og eins og vanalega þá sigldu þeir bátnum síðan til Njarðvíkur þar sem hann er kominn í slipp. Já, sumarboðinn ljúfi er stálbátur sem á sitt fasta sæti í slippnum í Njarðvík.
Talandi um dragnótabátana þá byrja þeir nokkuð vel á veiðum núna í júní. Sigurfari GK kom með 41,2 tonn í einni löndun, Benni Sæm GK 32 tonn í tveimur og Siggi Bjarna GK 17 tonn í tveimur róðrum.
Núna eru netabátarnir svo til allir hættir þorskveiðum. Erling KE er kominn í slipp og bátarnir hans Hólmgríms eru stopp. Eftir eru þá tveir bátar í Sandgerði sem eru á skötuselsveiðum. Garpur RE sem hefur landað 547 kg. og Sunna Líf GK 391 kg., báðir í einni löndun.
Allir minni línubátarnir eru farnir í burtu nema Katrín GK sem er í Sandgerði en hefur reyndar ekkert róið þaðan, nema landaði smá slöttum þar í maí eftir að hafa byrjað maí í Grindavík.
Nokkrir bátar eru á veiðum við Norðurlandið og er veiðin hjá þeim frekar döpur og ef tekið er tillit til þess hversu mikið kostar að keyra aflanum þá er þetta nokkuð furðulegt reikningsdæmi. Óli á Stað GK er með 12,5 tonn í þremur túrum, Hópsnes GK 10,3 tonn í þremur en hann er á bölum og er beitt af bátnum í Sandgerði og bölunum er síðan ekið norður til Siglufjarðar. Margrét GK var með 9,9 tonn í þremur túrum, Dóri GK landaði í Bolungarvík 11,3 tonnum í einni löndun .
Stóru línubátarnir fara nú að hætta veiðum en Páll Jónsson GK var með 87 tonn, Valdimar GK 75 tonn og Sighvatur GK 73 tonn, allir eftir eina löndun og allir að landa í Grindavík
Hjá togurunum kom Pálína Þórunn GK með 43 tonn í einni í Sandgerði, Bylgja VE 76 tonn í einni í Grindavík en Vísir ehf. er með togarana á leigu. Sóley Sigurjóns GK var með 52,5 tonn í einum túr en aflinn fór til Siglufjarðar og af því þá var rækja 31,3 tonn. Vörður ÞH var með 91 tonn í einum túr og Áskell ÞH 93 tonn í einum róðri, báðir í Grindavík. Berglín GK er núna í Reykjavík og liggur við Skarfabakka rétt aftan við uppsjávarskipin Venus NS og Víking AK.