Suðurnesjamenn fá enga loðnu
Og þá kemur enn einn pistillinn sem er skrifaður á degi þar sem er snarvitlaust veður og því enginn á sjó. Þessi pistill er reyndar skrifaður frá Hótel Dyrhólaey skammt frá Vík í Mýrdal. Ekki er nú hægt að finna neina tengingu Suðurnesjanna, bátalega sé, við þetta svæði – fyrir utan einn hlut. Það eru ufsaveiðar í net. Undanfarin ár hefur Grímsnes GK verið á ufsaveiðum á þessu svæði, utan við Vík og suður og austur með landinu út frá þessum punkti. Lengra aftur í tímann þá voru t.d. aflakóngarnir Oddur Sæm á Stafnesi KE, Grétar Mar á Bergi Vigfús GK og Gaui Braga á Vatnsnesi KE og fleiri bátum. Ég sjálfur var t.d. á Bergi Vigfúsi GK á ufsaveiðum á þessu svæði.
Nóg um það, núna er kominn um miðjan mars, veiði bátanna er búin að vera mjög góð og mestallur flotinn er búinn að vera að róa frá Sandgerði. Dragnótabátarnir hafa verið að veiða mjög vel og þegar þetta er skrifað þá eru þrír aflahæstu bátarnir á landinu allir frá Sandgerði. Sigurfari GK er með 82 tonn í níu róðrum og mest 17 tonn, Siggi Bjarna GK 64 tonn í níu og mest 20 tonn, Benni Sæm GK 63 tonn í níu og mest 24 tonn, Maggý VE 56 tonn í sex og mest 14 tonn og Aðalbjörg RE með 19 tonn í fjórum.
Margir línubátar eru búnir að vera á veiðum utan við Sandgerði og eins og hjá dragnótabátunum hefur veiðin verið mjög góð. Stóru línubátarnir hafa líka verið þar á veiðum en eru dýpra úti og eru meira í nánd við Snæfellsnes.
Sighvatur GK er með 296 tonn í tveimur róðrum og mest 149 tonn, Páll Jónsson GK 241 tonn í tveimur, báðir landa í Grindavík, Fjölnir GK 217 tonn í tveimur, Valdimar GK 178 tonn í tveimur, báðir lönduðu í Grindavík og Hafnarfirði. Hrafn GK 108 tonn í einum róðri.
Síðan koma minni bátarnir. Sandfell SU 85 tonn í átta, Hafrafell SU 64 tonn í sjö, Óli á Stað GK 61 tonn í sjö og Kristján HF 60 tonn í sex, allir hafa landað í Sandgerði. Auður Vésteins SU 45 tonn í átta, Vésteinn GK 36 tonn í fjórum en Vésteinn GK hefur landað í Grindavík. Margrét GK 34 tonn í fimm og Gísli Súrsson GK 32 tonn í sex, báðir í Sandgerði.
Geirfugl GK og Sævík GK voru báðir að landa í Sandgerði en þurftu að landa einni löndun hvor í Keflavík því bilun kom upp í báðum bátunum og fóru þeir báðir í slipp, reyndar ekki á sama deginum. Var bilunin í báðum bátunum ekki alvarleg og voru þeir ekki lengi frá veiðum.
Einn er sá veiðiskapur sem líka er búinn að vera stundaður þarna fyrir utan, og líka inn í Faxaflóa sem og í Breiðafirðinum, en það eru loðnuveiðar. Bæði íslensk skip og skip frá Færeyjum hafa verið á loðnuveiðum þarna á þessu svæði en því miður þá fáum við Suðurnesjamenn ekkert af þessari loðnu – sem er eiginlega sorglegt, því það voru bátar frá Suðurnesjunum sem hófu loðnuveiðar og það var bræðsla í Sandgerði sem var fyrsta fiskimjölsverksmiðjan á landinu sem tók á móti loðnu í bræðslu.
Frekar ömurleg staðreynd og hef ég áður minnst á þetta og hvað varð um bræðslurnar sem voru hérna. Það er reyndar fiskimjölsverksmiðja í Helguvík en Síldarvinnslan á Neskaupstað, sem á hana, lokaði henni fyrir nokkrum árum síðan.