Suðurnes og sóknarfærin
Uppbygginguna, sem verður að eiga sér stað eftir heimsfaraldurinn, þarf að undirbúa strax hér á landi. Við þá vinnu þarf að taka mið af sérstöðu hvers landssvæðis fyrir sig.
Eðlilegt er að horft sé sérstaklega til Suðurnesja þar sem fólk og fyrirtæki fengu þungan skell og atvinnuleysi er nú langmest á landinu. Við vitum að um leið og flugvöllurinn opnast að nýju, og fólk getur aftur ferðast, mun ástandið batna. En ef spár ganga eftir verður atvinnuleysið samt mun meira en í meðalári næstu árin.
Ferðaþjónustan verður mikilvæg í leiðinni út úr kreppunni. Það er mikilvægt og bráðnauðsynlegt að leggja stóraukna áherslu á alla innviði á Suðurnesjum, allt frá vega- og stígagerð og viðhalds til heilbrigðisþjónustu og löggæslu sem þurfa að geta borið aukið álag.
Sköpunargleði
Leita þarf líka nýrra lausna. Á Suðurnesjum eru mörg dæmi um stór og smá nýsköpunarverkefni sem hafa skapað verðmæti og störf. Dæmin eru um vörur unnar úr fiskafurðum, í matvælaiðnaði, snyrtivöruframleiðslu, í ferðaþjónustu og svo mætti lengi telja.
Margir búa yfir góðum hugmyndum en þurfa hvatningu og stuðning til að komast af stað, þróa hugmyndir og móta og koma þeim í framkvæmanlegt ferli. Löggjafinn á að skapa almennar forsendur til að nýsköpun fái að dafna, bæði lagaumgjörð og fjármagn. En það þarf líka að taka tillit til aðstæðna og auka sérstaklega fjárhagslegan stuðning til uppbyggingar á Suðurnesjum.
Fjárfestingar í grænni nýsköpun hafa aldrei verið jafn mikilvægar og nú á tímum og eru okkur raunar lífsnauðsynlegar þegar við stöndum frammi fyrir loftslagsvá af mannavöldum og hlýnun jarðar.
Það þarf að ýta undir fjölbreytta samsetningu atvinnulífs og verðmætasköpunar svo standa megi undir góðum kaupmætti, háu atvinnustigi og sterku velferðarkerfi. Framsýni og sköpunargleði munu ryðja þar brautina.
Áhuga og færni skortir ekki og þekking býr meðal fólksins á Suðurnesjum.
Eldgos og jarðhræringar
Eftir margra langvinna jarðskjálftahrinu fór að gjósa í Geldingadal. Mikið álag hefur verið á Grindvíkingum frá því að síðasta skjálftahrinan hófst í lok febrúar síðastliðnum.
Við vitum ekki enn hvernig eldgosið mun þróast en það virðist ætla að verða skaðlaust fólki enn sem komið er og engin mannvirki í hættu. Ef allir gæta að sér og fara eftir leiðbeiningum eru góðar líkur á að allt fari vel. Hvernig sem þróunin verður er öruggt að þetta svæði mun draga að sér ferðamenn í framtíðinni. Þar eru tækifæri sem Grindvíkingar og Suðurnesjamenn allir ættu að grípa og nýta.
Ég hef fylgst með störfum björgunarsveitarmanna og lögreglunnar með aðdáun og þakklæti undanfarna daga – og bæjaryfirvöld í Grindavík eiga líka hrós skilið og fólkið sem þar býr. Grindvíkingar hafa sýnt mikið jafnaðargeð og kjark við þessar aðstæður. Þá jarðvísindamenn og veðurfræðingar okkar hafa sýnt enn og aftur hvílíkan mannauð þar er að finna og þau munu halda áfram að leiða okkur áfram með eftirliti á gosstöðvum og loftgæðum.
Ástæða er til að ítreka mikilvægi þess að íbúar Suðurnesja fylgist vel með ráðleggingum og viðvörunum þeirra.
Ábyrga leiðin
Í október í fyrra kynnti Samfylkingin stefnumörkun sem við köllum Ábyrga leiðin úr atvinnukreppu til grænnar framtíðar. Þar eru fjölmargar tillögur um vinnu, velferð og uppbyggingu um allt land. Ein tillagan snýr sérstaklega að Suðurnesjum þar sem lagt er til að ráðist verði í fjárfestingarátak í landshlutanum.
Í tillögum okkar er líka að finna aukið framlag til sóknaráætlana landshluta og til nýsköpunar sem kæmi Suðurnesjum vel.
Góð heilbrigðisþjónusta fyrir alla er krafa okkar jafnaðarmanna. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur verið fjársvelt í mörg ár og þarfnast bæði fjárframlaga og faglegrar styrkingar. Samfylkingin hefur ítrekað lagt fram tillögur á Alþingi þar um sem munu ná fram að ganga komist Samfylkingin í ríkisstjórn eftir kosningarnar í september.
Oddný G. Harðardóttir,
þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.