Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Smábátunum var tekið að fjölga áður en móðir náttúra tók völdin
Fagravík GK 161 er sá smábátur sem lengst hefur haldið sama nafni, í heil 32 ár.
Föstudagur 26. mars 2021 kl. 06:26

Smábátunum var tekið að fjölga áður en móðir náttúra tók völdin

Heldur betur að móðir náttúra er í essinu sínum núna um þessar mundir. Fyrst byrjar með eldgosi í Geldingadal. Er nú nokkuð viss um að enginn eða alla vega fáir landsmenn vissu um þennan dal með þessu furðulega nafni, Geldingadalur. Það er ekki einu sinni minnst á þennan dal í ritinu Landið þitt Ísland. Og til að bæta aðeins á fjörið þá er búið að vera svo til vitlaust veður undanfarna daga, eða frá því að síðasti pistill var skrifaður, að það gerir sjósókn mjög erfiða fyrir bátana hérna á Suðurnesjum.

Fyrst við erum komin í veðurfarið þá er best að líta á þann flokk báta sem er mest háður veðráttunni, það eru smábátarnir og þá færabátarnir. Þeim var nú tekið að fjölga áður en móðir náttúra tók öll völd með eldgosi og leiðindaveðri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í Grindavík er t.d. Þórdís GK með 10,6 tonn í sex róðrum, mest 2,3 tonn, Sigurvon RE 8,5 tonn í sex, Grindjáni GK 6,3 tonn í fjórum, Hrappur GK 4,6 tonn í tveimur og Stella GK 2,6 tonn í einum.

Mikill fjöldi færabáta var í Sandgerði, t.d. Vinur SH með 9,3 tonn í átta og mest 2,2 tonn, Fagravík GK 8,6 tonn í sjö og mest 2,7 tonn, Fiskines KE 6,8 tonn í fjórum, Vonin ÍS 3,7 tonn í sex, Alla GK 3,6 tonn í fimm, Stakasteinn GK 2,9 tonn í fimm en Stakastein GK á Hjörtur Jóhannsson sem lengst af var skipstjóri á Njáli RE.

Fleiri stærri færabáta má nefna, t.d. Rokkarinn GK 2,4 tonn í fjórum, Gjafar GK 682 kíló í tveimur, Guðrún GK 10,1 tonn í átta, mest 2,8 tonn, og Kvika GK 691 kíló í einni löndun.

Reyndar er rétt að staldra við einn bát þarna sem minnst er á að ofan en það er Fagravík GK 161. Það er nefnilega þannig að á Íslandi er nú ekki mikið um að smábátar haldi sama nafni sínu í meira en þrjátíu ár – en jú það finnst nokkrir bátar um landið en þeir eru mjög fáir. Aftur á móti er Fagravík GK 161 sá smábátur á Suðurnesjum sem lengst hefur haldið sína sama nafni því báturinn var smíðaður árið 1989 og var lengst af skráður í Vogunum en skráninginn færðist til Sandgerðis árið 2018 og í 32 ár hefur báturinn haldið sínu nafni, Fagravík GK 161, og verið alla tíð í eigu sömu aðila eða fjölskyldu. Í þessi 32 ár sem báturinn hefur stundað veiðar hérna frá Suðurnesjum má segja að báturinn hafi einungis notað tvö veiðarfæri, net og handfæri.

Báturinn sjálfur er aðeins öðruvísi en hann var smíðaður því árið 2000 var hann lengdur. Reyndar, ef málið er skoðað aðeins betur, þá eru nú ekki margir bátar á Suðurnesjum í útgerð í dag sem hafa haldið sínu sama nafni í 32 ár, eins og Fagravík GK 161, og í raun er enginn bátur sem hefur haldið nafni sínu jafn lengi. Kannski sá sem kemst næstu því er Berglín GK en togarinn hefur verið með þetta nafn Berglín GK núna í 23 ár.

Að ofan var minnst á bátinn Stakastein GK og hann Hjört, eiganda sem lengi var skipstjóri á Njáli RE. Eftir að Njáll RE var seldur þá fór báturinn á smá flakk en þú aðalega varðandi skráningu bátsins, t.d. varð hann Njáll ÓF, síðan Njáll HU og að lokum Njáll GK 63 með heimahöfn í Sandgerði. Útlit bátsins drabbaðist mjög mikið niður og þegar hann var skráður Njáll GK var báturinn tekinn í slipp í Njarðvík og málaður snyrtilega svo hægt væri að skrifa Njáll GK 63 og Sandgerði á bátinn. Nú hefur báturinn tekið heldur betur miklum breytingum því hann var seldur til Breiðdalsvíkur og hefur fengið nafnið Silfurborg SU 22, er orðinn fallega rauður á litinn og lítur bara virkilega vel út – en þeir sem til þekkja vita að þegar að báturinn hét Njáll RE var mjög vel hugsað um bátinn og nýir eigendur greinilega ætla að halda því áfram með því að taka bátinn alveg í gegn eins og hann er orðinn í dag, rauður og fallegur.