Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Skemmtileg tilbreyting fyrir áhöfn Grímsnes GK
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
fimmtudaginn 17. febrúar 2022 kl. 10:47

Skemmtileg tilbreyting fyrir áhöfn Grímsnes GK

Held að það sé einhver ógæfa með að skrifa pistla á þessum degi sem ég skrifa þá. Því að það sem af er þessu ári þá hefur það verið þannig að ég skrifa pistilinn alltaf á sama degi og alltaf hefur verið leiðindaveður – og það er einmitt þannig núna þegar þessi pistill er skrifaður.

Þrátt fyrir það gátu sjómenn hérna á Suðurnesjunum loksins brosað mikið og tóku heldur betur á því, vegna þess að það var mokveiði hjá bátunum og skiptust minni línubátarnir svo til á þrjá staði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrsti hópurinn var á veiðum út frá Þorlákshöfn og voru þeir bátar á veiðum meðfram suðurströndinni áleiðis að Landeyjahöfn. Þar var t.d. Sævík GK og báturinn landaði 59 tonn í fimm róðrum. Þar voru líka bátar að austan, t.d. Sandfell SU, Hafrafell SU og Kristján HF.

Síðan var annar hópur utan við Grindavík og þeir veiddu líka vel. Þar voru t.d. Dúddi Gísla GK með 23 tonn í tveimur róðrum, Katrín GK með nítján tonn í tveimur, Geirfugl GK 19,3 tonn í tveimur, Óli á Stað GK með 18,5 tonn í tveimur og Daðey GK með 31 tonn í þremur.

Utan við Sandgerði var svo þriðji hópurinn og var eins og hjá hinum mjög góð veiði hjá þeim. Þar var t.d. Addi Afi GK með 7,5 tonn í einum róðri. Dóri GK með 27 tonn í þremur róðrum, Gulltoppur GK með fimmtán tonn í tveimur en hann er á balalínu. Hópsnes GK sem var minnst á í síðasta pistli var með 34 tonn í þremur róðrum en hann er líka á balalínu eins og Gulltoppur GK og Addi Afi GK.

Geirfugl GK kom síðan frá Grindavík og náði einni löndun í Sandgerði og kom með um tíu tonn þangað. Daðey GK kom líka og lenti í mokveiði, þurfi að tvílanda sama daginn. Var Daðey GK með 28 tonn í þremur róðrum og þar af um 19,5 tonn sem fengust sama daginn. Margrét GK hefur gengið mjög vel og var með um 40 tonn í fjórum löndunum. 

Þessi góða veiði kemur svo sem ekki á óvart, enda hafði í desember og janúar verið mjög veiði hjá bátunum þá daga sem gaf á sjóinn.

Hjá netabátunum hefur Erling KE gengið vel, kominn með 120 tonn í sjö róðrum og mest 29,5 tonn.  Báturinn er búinn að vera við veiðar utan við Hvalnes og landað í Sandgerði.  Reyndar er mjög lítið um netabátana núna því fyrir utan Erling KE þá eru aðeins þrír minni bátar auk Grímsnes GK sem minnst verður á hérna á eftir. Bergvík GK er með 4,8 tonn í þremur róðrum, Halldór Afi GK 6,5 tonn í fjórum og Maron GK 33 tonn í fjórum.

Grímsnes GK er búinn að vera eltast við ufsann. Reyndar þá fór Sigvaldi skipstjóri ásamt áhöfn sinni, eða hluta af henni, í nokkuð öðruvísi róður núna um daginn. Því þeir fóru út samhliða línubátnum Valdimar GK frá Grindavík og fylgdu honum út á miðin djúpt úti af Sandgerði. Með þeim voru tveir kvikmyndatökumenn sem eru að taka um þátt sem heitir Ice Cold Catch og verður sýndur á Discovery Channel.

Grímsnes GK fylgdi Valdimar GK út frá Grindavík og silgdi samhliða honum í ansi þungum sjó fimmtán til átján metrum á sekúndu og fjögurra til sex metra ölduhæð. Vel gekk að mynda og samtals mynduðu þessir tveir kvikmyndamenn samtals um fimmtán klukkutíma af efni.

Eftir að Grímsnes GK hafði farið til Grindavíkur og sett kvikmyndarmennina í land fóru þeir út aftur til að leggja net fyrir ufsann og lentu heldur betur í góðri veiði. Þeir komu í land með 30 tonn og af því var ufsi um 25 tonn.

Skemmtileg tilbreyting fyrir áhöfn Grímsnes GK og Grímsi stóð sig vel í þessu eins og Sigvaldi kallar bátinn sem hann er skipstjóri á.