Sjómenn eru margir hverjir búnir að liggja í leti
Aprílmánuðurinn líður og stutt í lokin á honum. Sjómenn eru margir hverjir búnir að liggja í leti í ansi langan tíma því hrygningarstopp var í gangi stóran hluta af apríl en bátar máttu fara til veiða 21. apríl síðastliðin.
Það voru þó ekki allir sem lágu í leti því nokkrir bátar réru en þeir þurftu að fara nokkuð langt út og þeir bátar, og þá aðallega línubátar sem réru, fóru flestir út fyrir Eldey og veiddu nokkuð vel.
Geirfugl GK fór til að mynda þangað og var með 53 tonn í þrettán róðrum. Hulda GK (gamli Dúddi Gísla GK) var með 41 tonn í átta róðrum og Margrét GK með 40 tonn í sesx róðrum.
Óli á Stað GK var í slipp framan af í apríl en hóf síðan veiðar í Sandgerði og var þar við veiðar nokkur djúpt úti og landaði 27 tonnum í fjórum róðrum.
Einhamarsbátarnir réru ekkert í apríl áður en stoppið hófst en hófu veiðar núna eftir að því lauk.
Einn bátur sem er búinn að vera hérna fyrir sunnan í vetur og landað til skiptis í Sandgerði og Grindavík fór á ansi mikið flakk.
Það er Kristján HF sem byrjaði apríl í Sandgerði og landaði þar 50 tonnum í þremur róðrum, fór síðan utan við Grindavík og kom þar með 19 tonn í einni löndun. Fór svo alla leið austur til Stöðvarfjarðar og landaði þar 32 tonnum í þremur róðum og hélt síðan áfram austar og alla leið til Vopnafjarðar og landaði þar 17 tonnum í einni löndun.
Frá Vopnafirði þá sigldi bátuirnn alla leið til Grindavíkur og er við veiðar þar fyrir utan. Á milli Vopnafjarðar og Grindavíkur er um 650 km leið landaleiðis, sjóleiðin er líklegast um 600 km löng, eða um 363 mílur, og því var Kristján HF um 36 klukkustundir að sigla þessa löngu leið.
Dragnótabátarnir réru ekkert fyrir stoppið, nema Maggý VE fór í einn róður og hóf síðan veiðar strax eftir stoppið og hefur landað 34 tonn í þremur róðrum.
Hjá netabátunum hefur mjög lítið verið um að vera. Þeir réru aðeins fyrir stoppið en hafa síðan aðeins komið sér að stað eftir stoppið – og eftir stoppið hefur veiðin verið ágæt. Halldór Afi GK með 2,7 tonn í einum róðri, Maron GK 8 tonn í einum og Grímsnes GK 2,6 tonn í einum, þetta er afli eftir stoppið. Erling KE hefur engu landað eftir stoppið en var með 56 tonn í fjórum róðrum áður en stoppið hófst.
Grásleppubátunum fjölgaði þónokkuð og er veiðin hjá þeim nokkuð góð, t.d er Svala Dís KE með 10 tonn í átta róðrum og af því er grásleppa 7,8 tonn, Tóki ST 1,8 tonn í tveimur og grásleppa af því 1,6 tonn, Sunna Líf GK 15,3 tonn í tíu og af því grásleppa 13,3 tonn, Guðrún GK 14,7 tonn í átta róðrum og af því er grásleppa 12,3 tonn og Addi Afi GK 11,1 tonn í sex og af því er grásleppa 9,3 tonn.
Allir þessir bátar eru í Sandgerði og má geta þess að Addi Afi GK er búinn að vera á grásleppu síðan í mars en bátranir mega veiða í 35 daga núna þessa vertíð.
Garpur RE 4,9 tonn í þremur róðrum og er grásleppa af því 4,1 tonn, Tryllir GK 4,3 tonn í fimm og af því er grásleppa 2,9 tonn. Báðir í Grindavík.
Í Grindavík hafa stóru línubátarnir líka verið að landa og er Fjölnir GK með 356 tonn í þremur róðrum, Sighvatur GK 333 tonn í þremur róðrum og mest 147 tonn, Páll Jónsson GK 346 tonn í þremur og mest 162 tonn í einni löndun og Valdimar GK 207 tonn í tveimur róðrum og mest 106 tonn.