Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Sílið hefur snúið aftur eftir að makríllinn hætti að koma
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 10. júní 2022 kl. 05:59

Sílið hefur snúið aftur eftir að makríllinn hætti að koma

Júní mættur á svæðið, þó ekki togarinn júní heldur þessi mánuður. Það voru reyndar gerðir út togarar sem hétu þessu nafni, Júni GK, og voru þeir frá Hafnarfirði. Fyrst síðutogari og síðan skuttogari.

Allavega þá byrjar þessi mánuður mjög rólega fyrir útgerð frá Suðurnesjunum. Sturla GK kom með 50 tonn til Grindavíkur. Enginn netabátur hefur landað og dragnótabátarnir eru enn á veiðum. Nesfisksbátarnir munu róa til 9. júní og fara síðan í stopp í sjö vikur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Reyndar fóru bæði Siggi Bjarna GK og Sigurfari GK vestur utan við Patreksfjörð og þegar þessi pistill er skrifaður þá voru þeir ennþá á veiðum þar og því ekki kominn afli.

Reyndar er þetta þriðji túrinn hjá Sigurfara GK þarna vestur, því hann fór í túr snemma í júní og náði þá tuttugu tonnum en þurfti að koma fyrr í land því það varð smá bilun í vírastýri á spili bátsins.

Það er eiginlega helst í gangi frá Suðurnesjunum utan við dragnótabátanna eru handfærabátarnir, en þeir eru nokkuð margir á veiðum og skiptast þeir má segja í tvo flokka, strandveiðibátana og bátana sem eru að veiða ufsann. Ragnar Alfreðs GK og Addi Afi GK komu báðir með svo til jafn mikinn afla í land, Addi Afi GK kom með 5621 kg og af því var ufsi 5,5 tonn, Ragnar Alfreðs GK kom með 5679 kr í land og af því var ufsi 3,3 tonn. Auk þeirra var Hrappur GK með 3,5 tonn í tveimur róðrum og af því ufsi 2,1 tonn í Grindavík, Stakasteinn GK 2,3 tonn í tveimur og af því ufsi eitt tonn, Snorri GK 2 tonn í einum og af því var ufsi 1,9 tonn, Snorri GK hét áður Brynjar KE, og Von ÓF 1,9 tonn í einum og af því ufsi 1,8 tonn.

Mikið líf er í sjónum hér fyrir utan og eftir að makrílinn hætti að koma þá hefur sílið komið aftur og með því hefur þorskurinn verið að eltast með. Tala sjómenn um það að nú sé mjög stór og mikill þorskur á veiðast á handfærin og það stefnir því í að sumarið verði gott hjá handfærabátunum frá Sandgerði og Grindavík.

Annars er ég staddur núna í Grundarfirði og þar hefur verið mikill uppgangur í útgerð og sem og hafnarstarfsemi. Margir togarar frá Reykjavík og 29 metra togararnir frá Grindavík hafa landað þar og er aflanum þá ekið suður til vinnslu.

Reyndar er bátur sem heitir Ísey EA núna gerður út frá Sandgerði og sá bátur á ansi sterka tengingu við Grundarfjörð. Ísey EA var smíðaður á Seyðisfirði árið 1976 og hét fyrst Langanes ÞH, hann var seldur 1978 til Grundarfjarðar og fékk þar nafnið Farsæll SH 30. Í Grundarfirði var báturinn í átján ár, eða til 1996, þegar að hann var seldur til Stykkishólms og þaðan til Ólafsvíkur.

Stakkavík ehf. í Grindavík kaupir bátinn árið 2007 og fékk hann þá nafnið Gulltoppur GK 24, Stakkavík gerði bátinn út til 2018 og þá á dragnót og línu með bölum. Síðan 2019 hefur báturinn heitið Ísey EA (var reyndar fyrst Ísey ÁR) og skipstjórinn á bátnum er Grétar Þorgeirsson sem var í 25 ár skipstjóri á bátnum Farsæli GK frá Grindavík sem faðir hans átti.

Það má geta þess að árið 2021 fiskaði Ísey EA um 1.143 tonn yfir árið og var þetta mesti ársafli sem að Grétar hafði náð en núna í ár hóf báturinn ekki veiðar fyrr en í enda apríl.

Áfram er hægt að finna tengingu því núverandi Farsæll SH er 29 metra togari sem var áður í Grindavík og hét þar Áskell EA – og reyndar er 29 metra togari gerður út frá Grundarfriði sem heitir Sigurborg SH en sá togari hét áður Vörður EA. Vörður EA og Áskell EA voru báðir í eigu Gjögurs en viku fyrir nýrri 29 metra togurum sem heita Vörður ÞH og Áskell ÞH.