Sér Hafró að sér og eykur þorskkvótann?
Nokkrir dagar núna milli hátíða og bátarnir frá Sandgerði eru allir úti. Reyndar var mokveiði hjá bátunum fyrir jólin, eiginlega mjög svo óvænt mokveiði því vanalega hefur desember verið frekar slakur aflamánuður – en ekki þessi.
Besta dæmið um mokið var netabáturinn Maron GK sem Hólmgrímur gerir út. Hann lenti í því að vera með átta trossur úti og þegar að búið var að draga sjö trossur voru öll kör og geymslupláss í bátnum orðin full af fiski. Þurfti áhöfnin á Grímsnesi GK því að koma og draga síðustu trossuna. Alls voru um 33 tonn af fiski í þessum trossum. Maron GK fékk tæp 70 tonn alls í fjórum róðrum núna rétt fyrir jólin og sagði Hólmgrímur að aldrei hefði hann fengið jafn mikinn afla á land í desember og núna. Hinn netabáturinn, Halldór Afi GK, var líka að fiska vel og þurfti að tvílanda einn daginn og landaði alls um 33 tonnum í fjórum róðrum.
Línubátarnir frá Sandgerði voru líka að mokveiða og sem dæmi tvílandaði Daðey GK, kom fyrst til Sandgerðis með 9,8 tonn sem fengust á níu rekka, eða um 25 bala. Það gerir um 392 kg á bala. Hann lagði fimmtán rekka og fór aftur út til þess að draga hina sex rekkana. Á þann fjölda landaði báturinn 5,8 tonni og eru það 360 kg á bala.
Eitt sem olli sjómönnum á línubátunum áhyggjum var að 29 metra togbátarnir eru líka að stunda togveiðar þarna á svipuðum slóðum og línubátarnir eru að veiða á. Ég er ansi oft á bryggjunni í Sandgerði og því miður hef ég heyrt sögur um árekstra á miðunum þarna fyrir utan. Í samtölum mínum við skipstjóra, bæði á línubátunum og trollbátunum, þá eiga þeir það sameiginlegt að menn vilja vinna þetta í sameiningu og í góðu.
Mjög stutt er frá höfn í Sandgerði og þarna út en togbátar frá t.d. Hornafirði, Grundarfirði, Grindavík og víðar hafa verið að veiðum þarna en sigla ekki til Sandgerðis til löndunar heldur til Grundarfjarðar, Hafnarfjarðar, Grindavíkur eða annað. Bærinn verður af þónokkrum tekjumissi vegna þessa – en vonandi munu menn vinna þetta í sátt og samlyndi við hvern annan á komandi vertíð. Reyndar er annað mál sem menn hafa áhyggjur af en það er að þorskkvótinn var skertur um 32.000 tonn núna þetta fiskveiðiár, á sama tíma er mokveiði á þorsk núna í desember og vetrarvertíðin er ekki einu sinni hafin.
Spurning hvernig þetta mun verða á næsta ári. Hafró fór í haustrall núna í október og helstu hrygningarstöðvar þorsks eru hérna við Suðurnesin og þeir toguðu á togara skammt utan við Stafnes núna í enda október og síðan beint vestur út frá Sandgerði sem og út af Krýsuvíkurbergi.
Reyndar var togað á um 400 stöðum víða við landið en niðurstöður voru þær að þorskvísitala væri lægri núna en hefur verið og kannski kemur það ekki á óvart, því að þeir eru að toga hérna sunnanlands á tíma þar sem að þorskurinn er ekki mikill hérna, helst er það að ýsan sé í nokkru magni hérna á þessum slóðum í október og nóvember.
Kanski sér Hafró að sér og eykur þorskkvótann því ekki gengur að hefja vertíð í mokveiði og þurfa síðan að stoppa allt saman.
Þessi pistill er síðasti pistill ársins 2021 og já, hann endar eins og þið sjáið á jákvæðum og kannski neikvæðum nótum – en eigum við samt ekki að enda þetta á jákvæðum nótum og segja að vertíðin 2022 verði feikilega góð og að menn vinni í sátt og samlyndi á veiðislóðinni utan við Sandgerði og síðan bara fagni nýju ári, árinu 2022?