Rólegt í útgerð frá Suðurnesjum
Í síðasta pistli fjallaði ég ansi mikið um bátana sem eru í slippnum í Njarðvík en ég var þá aðallega að horfa á stóru bátana. Það er nefnilega þannig að það má segja að það hafi myndast smá bátakirkjugarður á bak við gistiheimilið en þar eru bátar sem hafa verið þar margir hverjir í ansi langan tíma.
Reyndar var þarna bátur sem átti sér ekki neitt mjög langa sögu í útgerð hérna á landi. Þetta er bátur sem var með skipaskrárnúmerið 2606 og var fimmtán tonna plastbátur, smíðaður árið 2004. Þessi bátur var tekinn af skipaskrá árið 2022 og var þá seldur til Noregs þar sem hann er í útgerð í dag en á þessum átján árum hét báturinn alls sex nöfnum, þar á meðal Guðfinnur KE, Lómur KE og Örninn en undir nafninu Örninn var hann lengst, eða í níu ár.
Annars er búið að vera mjög rólegt undanfarið í útgerð frá Suðurnesjum. Svo til allir dragnótabátarnir eru orðnir stopp nema Aðalbjörg RE sem hefur róið oftast, eða sjö róðra, og er kominn með 65 tonna afla. Af þessum afla eru aðeins 7,2 tonn af þorski. Uppistaðan í aflanum hjá Aðalbjörgu RE er koli og má segja að fáir dragnótabátar á landinu veiði jafn mikið af kola og áhöfnin á Aðalbjörgu RE veiðir.
Sigurfari GK kom með 49 tonn í einni löndun og fór síðan í slippinn í Njarðvík. Siggi Bjarna GK 46 tonn í þremur róðrum og Benni Sæm GK 40 tonn í þremur.
Enginn netabátur rær frá Suðurnesjum og í Grindavík hafa nokkir bátar landað og þá aðallega línubátar. Sighvatur GK er með 217 tonn í tveimur róðrum og mest 111 tonn, Páll Jónsson GK 76 tonn í einni löndun, Sævík GK 44 tonn í fimm róðrum og mest 15,4 tonn í löndun en uppistaðan í aflanum hjá Sævík GK er langa. Daðey GK er komin með 40 tonn í sex róðrum.
Sævík GK og Daðey GK eru krókabátar sem eru í eigu Vísis í Grindavík en um áramótin fækkaði Vísir um einn bát í línubátaflotanum sínum þegar ákveðið var að leggja Fjölni GK. Fjölnir GK átti sér nokkuð langa sögu í útgerð á Íslandi og þá lengst á Rifi en þaðan var báturinn gerður út í hátt í 30 ár og hét þá Rifsnes SH.
Vísir eignaðist bátinn árið 2013 og hét hann þá Ocean Breeze GK 157 og var þá gerður út í Kanada á línuveiðar þar. Fjölnisnafnið fékk svo báturinn árið 2016.
Þetta nafn, Fjölnir, hefur verið lengi í notkun hjá Vísi því að fyrsti báturinn sem fyrirtækið var með hét Fjölnir ÍS og var það eikabátur. Núna er Sævík GK komin í slippinn í Njarðvík og eitt af þeim verkefnum sem liggja fyrir er að skipta um nafn á bátnum því báturinn mun fá nafnið Fjölnir GK.
Hinn krókabáturinn, Daðey GK, verður settur á söluskrá, samtals eru þessir tveir bátar með um 1.760 tonna kvóta miðað við síðustu úthlutun. Þetta er ansi mikill kvóti sem þessir tveir bátar hafa og verður fróðlegt að sjá hvernig Fjölni GK mun ganga á nýju fiskveiðiári.