Rán um hábjartan dag
Verð að viðurkenna að mér var nokkuð brugðið um daginn þegar ég fór í matvöruverslun. Var ekki að versla neitt sérstakt, venjulegan heimilsmat og svo þvottaefni. Nýtti mér sjálfsafgreiðslukassa og kallaði svo eftir reikningnum, sem mér fannst vera langt yfir því sem sanngjarnt gæti talist. Kannski vegna þess að ég hafði nýlega verið hinum megin við Atlantshafið og fengið að kynnast sanngjarnari verðlagningu á matvöru að því er mér fannst.
Fyrir ekkert svo löngu síðan voru fréttir heldur lengur að berast frá útlöndum en nú er, og matvaran líka. Neysluvaran kom með vor- eða haustskipum frá útlöndum um leið og allskonar fréttir um stöðu mála í Evrópu bárust til landsins. Síðan hafa komið til sögunnar margskonar tæknibreytingar og fjarskipti, sem auðvelda okkur lífið. Við getum með einföldum hætti fylgst með hvað epli og appelsínur kosta í verslunum um alla Evrópu á sama tíma og við verslum inn á Íslandi. Þar munar miklu.
Við höfum á undanförnum vikum og reyndar áratugum fengið að fylgjast með allskonar skýringum á háu vöruverði á Íslandi. Auðvitað hefur gengið spilað þar stóran hlut en ein skýring sem kemur upp aftur og aftur lýtur auðvitað að því að við séum eyja út í hafi og það kosti mikla peninga að flytja vöruna til landsins. Einn forstjóri olíufélags útskýrði þetta enn frekar um daginn og vandamálið sem við virðumst standa frammi fyrir er að erfitt er að fá skip og skipstjóra til að sigla stórum skipum til landsins.
Var að velta öllu þessu fyrir mér þegar ég stóð og beið eftir að sjálfsafgreiðslukassinn lagði saman vöruverðið og byði mér upp á valmöguleika hvernig ég gæti greitt fyrir vöruna. Er það virkilega þannig að við séum eina eyjan á jarðarkringlunni sem þarf á aðflutningi vista að halda? Af hverju gengur Færeyingum, Grænlendingum og jafnvel íbúum á Hawaii betur að fá skip og skipstjóra til að sigla með vistir til þessara landa og selja neytendum vöruna á betra verði í flestum tilfellum?
Það var sama hvernig ég velti þessu fyrir mér, ég komst ekki að neinni einfaldri skýringu. Auðvitað er hægt að kenna verðtryggðu krónuhagkerfi án samkeppni um einhvern hlut af þessu en samt ekki alveg. Íslenskir innflytjendur eru örugglega ekki að kaupa inn vöruna á einhverju verra verði en aðrir. Eina skýringin sem mér fannst sennileg var álagningarprósentan, enda íslenskar vörur líka hækkað langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Hver sem ástæðan kann að vera er ljóst að reikningurinn sem við neytendur þurfum að borga fyrir neysluvöru okkar í daga rúmast í einni setningu. Rán um hábjartan dag.