Play it again Sam
Jákvæðustu fréttir sem íslensk ferðaþjónusta hefur fengið í nokkur misseri litu dagsins ljós á þriðjudag, þegar nýtt íslenskt flugfélag, Play var kynnt til leiks. Félagið er vel fjármagnað og það á að byrja rólega með tvær flugvélar en reyna svo að fjölga í sex og fljúga til Bandaríkjanna.
Þó lítið hafi farið fyrir því í umræðunni á árinu þá hafði fall WOW gríðarlega slæmar afleiðingar fyrir íslenska ferðaþjónustu og MAX vandræði Icelandair sem enn hefur ekki séð fyrir endann á var annað eins, ef ekki verra. Höggið af þessum óförum flugfélaganna er án nokkurs vafa þyngst á Suðurnesjum. Við fögnum því að fyrrum starfsmenn WOW hafi haft kjark og þor til þess að láta slag standa og koma nýju íslensku flugfélagi í loftið. Ég er spenntur og óska þeim alls hins besta. Ég er ekki síður spenntur að komast í loftið með MAX vélum Icelandair því með Icelandair í fullum gír og Play til viðbótar mun íslensk ferðaþjónusta blómstra.
Þá er um að gera fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum að láta vel til sín taka og gera enn betur í að fá erlenda ferðamenn til að staldra við hér á Reykjanesi sem er þó það fari alltof oft framhjá okkur heimamönnum einn fallegasti og fjölbreyttasti ferðamannastaður landsins. Hvað er betra en norðurljósin úti í Garði, Gunnuhver, Eldvörp og Bláa lónið svo ekki sé minnst á einfaldari hluti eins og sjávarstíginn í Reykjanesbæ. Samhliða því er rétt að taka undir orð Línu Rutar; „Fegrum bæinn saman“