Ósk & Óskar
Ég var eflaust ekki í fámennum hópi Íslendinga sem horfði og hlustaði á hina íðilfögru rödd Keflvíkingsins Huldu Geirsdóttur lýsa því þegar Hildur Guðnadóttir varð fyrst Íslendinga til þess að vinna hin eftirsóttu Óskarsverðlaun sem sýnd voru í beinni útsendingu á RÚV. Hildur er ekki eingöngu Íslendingur í húð og hár, hún er líka kona. Þvílíkt afrek. Þvílík manneskja. Já, hæfileikar spyrja ekki um landamæri. En spyrja hæfileikar um kyn?
Ég er örugglega ekki ein um það að vera orðin þreytt á kyngeringu alls. Oftar en ekki þá heyrir maður það viðhorf að það sé eðlilegt að kyngera flestallt. Ég meina „konur eru frá Mars og karlar frá Venus“, „konur eru ekki eins og karlmenn“ og allir þessir hefðbundnu kynjafordómar. Ég deili ekki þessum skoðunum. Ég er einfaldlega orðin þreytt á því að horfast í augu við þá staðreynd að við þurfum enn að berjast fyrir því að kvenkynið sé metið til jafns við karlkynið. Berjast fyrir því að konur eru líka menn. Berjast fyrir því að konur fái sömu tækifæri til viðurkenninga og karlmenn. Árið er 2020 en stundum líður mér eins og það sé 1920. En hvað hefur áorkast á þessum 100 árum? Ég las grein á World Economic Forum um daginn og þar kemur fram að við sem búum í Vestur-Evrópu eigum enn eftir 54 ár til þess að ná fullu jafnrétti. Í heiminum öllum þá eigum við enn 99,5 ár í að ná fullu jafnrétti kynjanna. 99,5 ár, takk fyrir túkall!
En aftur að Óskarnum og hvernig birtingarmynd ójafnréttis kemur berlega í ljós þar. Samkvæmt grein sem var skrifuð í The Guardian þann 6. febrúar síðastliðinn þá hafa konur fengið 11,5% af öllum tilnefningum til Óskarsverðlauna frá upphafi verðlaunanna 1929 til dagsins í dag. 11,5%! Á sama hátt eru aðeins 11% af vinningshöfum konur. Það sem meira er, að það eru fleiri karlmenn sem hafa hlotið hin eftirsóttu Óskarsverðlaun en allar þær konur sem hafa verið tilnefndar frá upphafi. Pælið í þessu. En að því jákvæða við verðlaun Hildar. Hildur er fyrst Íslendinga til þess að vinna Óskarinn. Hildur er líka kona. Hæfileikar spyrja nefnilega ekki um kyn.
Við verðum að halda áfram að berjast. Hættum að kyngera allt. Fyrir komandi kynslóðir. Fyrir okkar afkomendur. Við konur og sömuleiðis karlmenn verðum að halda áfram. Jafnrétti er ekki bara fyrir konur. Jafnrétti er fyrir alla. Ég á mér þá ósk að við náum fullu jafnrétti kynjanna áður en 99,5 ár líða. Hildur átti sér ósk um að vinna Óskar. Hildur fékk sína ósk uppfyllta. Fyrsta konan sem vinnur ein þessi verðlaun í sínum flokki. Hildur veitir mér von.
Inga Birna Ragnarsdóttir.