Óblíðir veðurguðir
Ekki er nú hægt að segja að veðurguðirnir hafi verið neitt blíðir síðustu daga, núna í byrjun nóvember. Mjög hvasst var og Faxaflóinn, sem oft er fallega spegilsléttur, var ógurlegur að sjá. Mjög mikið brim og sjór gekk yfir t.d. grjótgarðana meðfram ströndinni frá smábátahöfninni í Gróf og áleiðis til Njarðvíkur.
Í Sandgerði var mjög mikil hreyfing í höfninni, enda var líka mjög hásjávað og fór þar þannig að tvær smábátabryggjur urðu fyrir smá skemmdum. Við þá fyrri, þar sem t.d. að Steini GK, Birna GK og Addi Afi GK liggja, færðist bryggjan til þannig að landgöngubrúin rann úr sæti sínu á bryggjunni og var við það að fara útaf og í sjóinn. Aðeins meira bras var við hina flotbryggjuna en það er bryggjan sem er lengst í burtu og er nálægt olíutönkunum. Þar eru t.d. Ragnar Alfreðs GK og Margrét GK sem liggja við. Þar voru lætin það mikil að flotbryggjan sleit sig lausa og m.a. féll landgöngustiginn frá landi og niður á bryggjuna í sjóinn. Hann var þó hangandi við þann hluta sem er við landið.
Þessar leiðindabrælur hafa þýtt það að bátar frá Suðurnesjum hafa mjög lítið komist á sjóinn. Addi Afi GK hefur aðeins komist í einn róður og var með 1,7 tonn, Alli GK var með 1,6 tonn líka í einum róðri. Jón Pétur RE hefur komist í tvo róðra og landað 1,8 tonnum í tveimur róðrum af skötusel frá Sandgerði. Tveir handfærabátar hafa líka róið frá Sandgerði. Fengur GK með 600 kíló í tveimur róðrum og Steini GK með 308 kíló í einni löndun.
Mjög rólegt hefur verið í Grindavík en enginn minni bátur hefur landað þar, aðeins Hraunsvík GK sem er á netum og hefur landað 3,5 tonn úr þremur róðrum. Frekar ótrúlegt að sjá að Grindavík, sem er ein af stærstu höfnum landsins varðandi kvóta, að höfnin þar núna í byrjun nóvember er svo næstum því alveg steindauð, því allir bátarnir sem eru gerðir út þaðan eru að landa úti á landi.
Og talandi um það þá má nefna að Sturla GK er með 187 tn í tveimur löndunum. Fjölnir GK 131 tonn í einni, Kristín GK 109 tonn í tveimur, allir á Siglufirði. Jóhanna Gísladóttir GK 98 tonn í einni á Djúpavogi. Páll Jónsson GK 88 tonn í einni og Valdimar GK 82 tonn í einni löndun.
Gróflega þá eru þetta um eitt þúsund tonn sem hefur verið landað af línubátunum frá Grindavík og svo til öllu af þessum eitt þúsund tonnum er ekið til Grindavíkur og á meðan er höfnin í Grindavík svo til galtóm.
Dragnótabátarnir hafa fiskað ágætlega. Sigurfari GK fór í mikið flakk og fór alla leið austur á Hornafjörð að landa þar. Hann er kominn með 46 tonn í þremur róðrum og er komin suður núna til Sandgerðis. Benni Sæm GK með 30 tonn í fimm. Siggi Bjarna GK 21 tonn í fimm. Aðalbjörg RE 16,3 tonn í tveimur en báturinn er nýkominn til Sandgerðis eftir að hafa verið í Reykjavík að landa. Báturinn var í bugtinni að veiða og það má geta þess að nokkrir úr áhöfn Aðalbjargar RE eru frá Sandgerði og voru áður t.d. á Njáli RE.
Netaveiðarnar ganga brösuglega. Grímsnes GK er með 9,3 tonn í sex. Maron GK 8,7 tonn í sjö. Sunna Líf GK 4,5 tonn í fimm og Halldór afi GK 2,4 tonn í fjórum róðrum.
Semsé frekar lítið um að vera í höfnum á Suðurnesjum og helst er það í Sandgerði sem eitthvað er um að vera.
Umsjón: Gísli Reynisson // [email protected]