Nýtt og betra hús Brunnastaðaskóla
Í febrúar 1929 var farið að huga að byggingu nýs skólahúss. Að dómi skólanefndarinnar var þáverandi hús orðið óhæft til kennslu og hættulegt heilsu barnanna (myndin er tekin um áratug síðar). Ekki er hægt að segja að hreppsnefndin hafi hraðað sér að byggja, því haustið 1931 er allt við það sama. En þá kemst smá hreyfing á málið og næstu ár toguðust skólanefnd, hreppsnefnd og fræðslumálastjórn á um stærð og gerð skólabyggingar. Á fundi í september 1932 bókar skólanefndin: „Þar sem börn þau sem sækja eiga Suðurkotsbarnaskólann eru 30 að tölu en skólastofan tekur ekki nema 24, fellst nefndin á að skipta börnunum þannig að hvor deild sæki skólann annan hvorn dag og bæta við eins mánaðar kennslu (aprílmánuði).“ Þannig varð það næstu vetur.
Árið 1933 ítrekaði skólanefndin að ástandið væri algerlega óhæft og lagði til að skólahúsið yrði byggt samkvæmt fyrirliggjandi teikningu húsameistara ríkisins, með tveimur kennslustofum, heimavist og kennaraíbúð. Á þessum árum er kennt á tveimur stöðum (í Brunnastaða- og Vatnsleysuhverfi) og kennarar voru tveir en þarna er ætlunin að sameina kennsluna á einn stað – með tveimur kennurum og heimavist.
Svo liðu mörg ár, lítið gerðist og menn björguðust með því að kenna á tveimur og þremur stöðum. Árið 1938 breytir Suðurkotsskóli um nafn og heitir eftir það Brunnastaðaskóli. Árið 1942 eru hreppsnefndarkosningar og um haustið er komið nýtt hljóð í strokkinn. Þá liggur fyrir teikning að húsi sem er hugsað sem heimangönguskóli en börnin verði flutt með skólabíl, eða á annan hátt tryggt ókeypis bílfar að og frá skólanum.
Grunnur hússins var steyptur 1943. Húsið er hlaðið úr steini, orðið fokhelt í september 1944 og var það vígt og tekið í notkun 9. desember. Svo virðist sem gamla húsið hafi verið rifið og líklega nýtt úr því eitthvað efni, því kennsla yngri barna féll að mestu niður þetta haust og Viktoría kenndi eldri deildinni í stofunni á Minna-Knarrarnesi, að sögn Reynis Brynjólfssonar sem átti þar heima og hefði átt að vera í yngri deildinni.
Í húsinu voru þrjár kennslustofur (kennt í þremur deildum); breiður gangur eftir endilöngu húsinu (stundum notaður til íþróttakennslu og seinasta áratuginn þiljuð þar af vinnuaðstaða kennara); stofa til afnota fyrir kennara; hitaklefi, geymsla og geymsluloft, en engin íbúð fyrir kennara eins og í gamla húsinu.
Sökum þess hve fjárhagur hreppsins var knappur var húsið frekar lítið og engin íburður. Engir styrkir fengust til byggingarinnar, lán lítil og til skamms tíma, og tekjur hreppsins ekki miklar því íbúum hafði fækkað stöðugt og voru nú aðeins um 250. Umsjónarmaður byggingarinnar var Jón G. Benediktsson, þáverandi oddviti. Almenn fjársöfnun var í hreppnum til byggingarinnar sumarið 1943 og gáfu 30 manns u.þ.b. 5.000 krónur samtals. Stærstu gefendur voru Viktoría skólastjóri og Árni Klemens skólanefndarformaður og frú, hvort sinn þúsundkallinn. Á vígsludegi hússins, 9. desember 1944, skrautritar Stefán Hallsson, kennari og skólabílstjóri, gjafarbréf og gefur kennaralaun sinn þann vetur til þess að kaupa borð og stóla fyrir yngri deildina – eða til að kaupa nýjan skólabíl!
Stefán kenndi aðeins þann vetur í nýja húsinu. Hann kenndi svo við Barnaskóla Keflavíkur næstu ár. Þar missti Vatnsleysustrandarhreppur fjölhæfan kennara, kirkjukórstjóra og skólabílstjóra. Næstu vetur voru börnin það fá (tæplega 30) að varla fékkst að ráða einn kennara auk skólastjórans, og skólaakstur féll niður haustið 1945.
Bágur fjárhagur hefur valdið því að húsið var ekki fullbyggt. Ári eftir vígsluna rekur Bjarni M. Jónsson, námsstjóri, á eftir því að lokið verði við ófullgerð herbergi þar sem m.a. vantar upphitun, gluggatjöld og húsgögn. 1947 telst húsið enn vera ófullgert og úttekt ólokið. Svo þurfti að gera verulegar lagfæringar á því aðeins tíu árum síðar. Þrátt fyrir það var tilkoma hússins og sameining alls skólastarfs á einn stað, með tilheyrandi skólaakstri, bylting á skólamálum á Vatnsleysuströnd og Vogum.
Þegar hús þetta er aðeins fimmtán ára, í maí 1959, skorar skólanefndin á hreppsnefnd að þá þegar verði athugaðir möguleikar á að byggja nýtt skólahús í Vogum, enda sé húsið svo ófullnægjandi að ekki sé hægt að framkvæma lögboðna kennslu í söng, leikfimi og handavinnu. Börnum er farið að fjölga og húsið of lítið. Í fundargerðum skólanefndar frá því um 1970 kemur fram að gera þurfi miklar endurbætur, skólinn haldi hvorki vatni né vindi, dúkar lélegir, salerni mjög léleg og drykkjarvatn mengað.
Á myndinni er spilað bobb á ganginum 1966. Nýtt skólahús í Vogum var vígt 1979 og segir frá því síðar.
Heimildir: Gjörðabók skólanefndar. Greinar um skóla á Suðurnesjum í Faxa 1. tbl. 1990 og Faxa 2. tbl. 1990.