Mokveiði í mars en margir í slipp
Það er búið að vera mikið um að vera í slippnum í Njarðvík síðustu daga. Nokkuð margir bátar og þá aðallega minni bátar hafa verið teknir þar upp til ýmissa verka, t.d. Geirfugl GK, Dóri GK, Margrét GK og Hópsnes GK. Allt eru þetta línubátar sem hafa verið að róa hérna sunnanlands á vertíðinni.
Af hverju núna í slipp? Jú, hrygningarstoppið er hafið og eru þá veiðar með t.d. línu og netum bannaðar upp að tólf mílum, en stærri bátarnir hafa róið en fara lengra út. Þegar þetta er skrifað er nokkuð mikill floti línubáta á veiðum djúpt úti frá af Sandgerði.
Marsmánuður var mokveiðimánuður og apríl hefur byrjað ansi vel og sérstaklega hjá togurunum. Pálína Þórunn GK er kominn með 277 tonn í fimm róðrum núna í apríl og er aflahæsti 29 metra báturinn á landinu og í sæti númer fjögur yfir aflahæstu togaranna þegar þetta er skrifað.
Nokkrir bátar hafa byrjað veiðar með grásleppunetum og hafa þeir verið að róa að mestu frá Sandgerði t.d. Guðrún GK sem er með 5,4 tonn í þremur róðrum, Addi Afi GK sem er með 13,6 tonn í fjórum, af því er grásleppa 5,9 tonn en hitt er afli sem hann veiddi á línu.
Út af hrygningarstoppinu eru netabátarnir stopp en veiðin hjá bátunum fyrir stoppið var nokkuð góð. Erling KE með 82 tonn í fimm róðrum, Grímsnes GK 67 tonn í sex, Langanes GK 62 tonn í fimm, Maron GK 32 tonn í sex, Halldór Afi GK 19,4 tonn í fjórum. Allir bátarnir voru að róa í Sandgerði en komu í síðasta túrnum sínum til Keflavíkur og Njarðvíkur og liggja þar í stoppinu.
Dragnótabátarnir hafa líka fiskað vel og Benni Sæm GK er kominn með 94 tonn í fimm róðrum og er þegar þetta er skrifað aflahæsti dragnótabáturinn á landinu núna í apríl. Siggi Bjarna GK er nú ekki langt á eftir Benna Sæm GK en hann er kominn með 87 tonn í fimm túrum og er næstaflahæstur á landinu. Sigurfari GK er með 66 tonn í fjórum. Það var ansi stutt á milli Sigga Bjarna GK og Benna Sæm GK þegar ég átti leið í Sandgerði núna um daginn og náði smá myndbandi af þeim koma saman í höfn í Sandgerði og fylgir það hérna með.
Texti: Gísli Reynisson