Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Miðlífskrísa
Lokaorð Ingu Birnu Ragnarsdóttur
Laugardagur 7. desember 2019 kl. 07:16

Miðlífskrísa

Það er vetur. Árið er 1972. Á fæðingarheimilinu í Reykjavík kom í heiminn lítið stúlkubarn, sem grenjaði hin ósköp. Hún var kærkomin viðbót í litlu fjölskylduna, en fyrstu mánuðina var hún ekki til friðs. Svaf lítið sem ekkert, var illa útsett af exemi og foreldrar hennar þökkuðu fyrir það á hverjum degi að eldri dóttirin væri ljúf og góð. Árin liðu og það var staðfest að yngri dóttirin var mjög fyrirferðarmikið barn. Þurfti sífellt að vera á hreyfingu. Var send á æfingar í öllum mögulegum íþróttum og fann sig svo loks í dansi. Dansaði allan sólarhringinn fyrir framan spegilinn á æskuheimilinu, eldri systur til mikillar ógleði en æfingunum fylgdu mörg tábrot og eldri systirin óskaði þess heitast að loka hana inni í herbergi, fá frið. Hún fékk útrás fyrir alla orkuna í hinum ýmsu verkefnum, var oft kölluð „Inga frekja“ og fékk ansi oft að heyra „djöfull ertu ofvirk“. Það háði henni aldrei, nema þegar hún fór yfir strikið og fólki fannst hún aðeins of en það lærðist með aldri. Í dag er þessi kona 47 ára. Hefur alltaf unnið mikið, með mismiklum árangri þó og reyndi samfara vinnu að ala upp tvö börn og sinna fjölskyldu og vinum. Þakklát fyrir að fólk hafi stundum ekki hreinlega bara gefist upp á henni. Verkefnin hafa líka verið fjölmörg, misskemmtileg en síðustu ár finnst henni hún loksins hafa fullorðnast. Stundar jóga af ástríðu, er ekkert góð í því en finnur sig sannarlega þar.

Umrædd kona er undirrituð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Undanfarin ár hef ég með einhverjum hætti náð að meta lífið á annan hátt. Ég er farin að leyfa gráu hárunum að blandast fallega við hárlitinn minn, er ekki „obsessed“ af aukakílóum, vakna brosandi og hlæ meira. Ég sagði meira að segja upp starfinu mínu fyrir nokkrum vikum, því ég fann að ég þyrfti að fara að gera eitthvað allt annað. Fór ég kannski ekki rétta braut í lífinu? Af hverju er ég með tvær háskólagráður í viðskiptum, hef ég gaman af því? En allt hefur sinn tíma og ég sé sko ekki eftir neinu. Eldri dóttir mín heldur að mamma sín sé komin í miðlífskrísu, hún hefur smá áhyggjur. Mamma ætlarðu í alvöru ekki að lita gráu hárin? Af hverju ertu alltaf að standa á höndum inni í stofu? En nýtur þess á sama tíma að dansa við mömmu sína í stofunni og syngja, þó hæfileikar mömmunar séu takmarkaðir á því sviði. Ég er hamingjusöm, hamingjusamari en ég hef nokkurn tíma verið. Ég veit ekkert hvað mig langar að gera í lífinu, í miðlífskrísu eða ekki en eitt veit ég – ég hlýt að finna hæfileika í einhverju, það bara getur ekki annað verið. Settist t.d. niður við skriftir í vikunni og skrifaði sextán limrur um mínar yndislegu veiðivinkonur fyrir jólahlaðborð. Kannski hef ég einhverja dulda hæfileika. Leyfum okkur að lifa kæra fólk, hlæja, staldra við og hugsa hvað okkur langar að gera. Eigið yndislega aðventu og munið að brosa í spegilinn, það er drullugott sko!