Menntun og skemmtun kennara
Menntun kennara er margvísleg og misformleg. Sumir eru nánast fæddir kennarar en aðrir ná ekki tökum á því starfi þrátt fyrir kennaranám. Fyrstu áratugina voru guðfræðingar hvað best menntuðu kennararnir. Vísir að formlegri kennaramenntun varð fyrst til eftir að Thorkilliibarnaskólinn (1872) hafði starfað í áratug og var það nokkurra vikna viðbót við gagnfræðanám. Síðan kom til sögunnar tveggja ára kennaraskóli 35 árum seinna. Nú þarf fimm ára háskólanám til að mega kalla sig kennara, enda er kennslan í dag margþætt og vandasöm.
Kennarastarfið hefur verið lögverndað frá því á níunda áratugnum. Ef skólastjóra tekst ekki að ráða neinn með kennarapróf getur hann sótt um undanþágu til að ráða ófaglærðan aðila. Gildir sú ráðning í ár, kallast starfsmaðurinn leiðbeinandi og er á heldur lægri launum. Nokkuð er fjallað um kennaramenntun í 20. og 25. þætti.
Auk grunnáms hafa lengi verið ýmis konar námskeið fyrir kennara. Sumarnámskeið voru algeng meðan sumarleyfi nemenda var þrír, fjórir mánuðir og gátu kennarar hækkað um launaflokk ef þeir sóttu tiltekinn fjölda viðurkenndra námskeiða. Það breyttist snemma á 21. öld, við tóku stutt námskeið á skólatíma og einnig varð algengara að leiðbeinendur lykju kennaranámi á nokkrum árum í fjarnámi.
Í aðalnámskrá grunnskóla sem kom út 2011 voru skilgreindir sex grunnþættir menntunar: Læsi; sjálfbærni; lýðræði og mannréttindi; jafnrétti; heilbrigði og velferð; og sköpun. Haldin voru stutt námskeið um þessa þætti í skólum landsins, m.a. í Stóru-Vogaskóla. 2. apríl 2013 var fræðsla um grunnþáttinn Heilbrigði. Þá skráði undirritaður hjá sér eftirfarandi minnisatriði:
- Heilsuefling – velferð – lífsleikni. Förum úr forvörnum í heilsueflingu.
- Heilsuefling er það að auðvelda fólki að ná betri stjórn á eigin heilsu.
- Jákvæð sjálfsmynd er besta vörnin gegn áhættuhegðun.
- Frekar en að banna eigum við að hampa ákveðnum leiðum.
- Ein áhættuhegðun kallar á aðra.
- Hvaða hegðun kallar gosdrykkja á? Eða próteínduft?
- Illskárra er að vera ögn í ofþyngd en vannærður. u.þ.b. 30 kg bil er eðlilegt. BT-stuðull: 18–26.
- Verst er að safna fitu um mittið. Mittismál er góður mælikvarði.
- D-vítamín: Mælt með að fara fimmtán mínútur út í sólina, setja svo á sig sólarvörn! RDS (ráðlagður dagskammtur) hefur heldur hækkað. Ein matskeið af lýsi gefur tvöfalt RDS.
Úr hliðstæðu námskeiði um jafnrétti hafði höfundur m.a. glósað þetta:
- Ungt fólk er íhaldssamara en fyrir tuttugu árum. Fegrunarkröfur og klámvæðing hafa aukist.
- Um 1970 luku álíka margar stelpur og strákar stúdentsprófi, síðan keyrðu stúlkurnar fram úr.
- Stúlkur ná mun betri árangri í 10. bekk, eru þar með þeim bestu í heimi!
- Stærsti ójöfnuður í íslensku skólakerfi er kynjamunur.
- Kynjajafnrétti er stór hluti af mannréttindum og lýðræði.
- Strákar hugsa mest um ávinning af störfum en stelpur virðingu og starfsánægju.
Kjörorð Stóru-Vogaskóla á 21. öld eru vinátta – virðing – velgengni.
Í byrjun 20. aldar var innleitt SOS-agastjórnunarkerfi, SMT-kerfi og Olveusar-áætlun til að bæta líðan og starfsanda í skólanum, fyrirbyggja og uppræta einelti og var samin eineltisáætlun fyrir skólann.
Eftir að lög voru sett um að allir ættu rétt til skólagöngu í sinni heimabyggð hófu nemendur með alvarleg frávik eða fötlun nám við skólann. Þá fengu starfsmenn stutt námskeið um hvernig best væri að aðstoða þá.
Á einhverfu- og asperger-námskeið 6/11 2014 var okkur ráðlagt að setja fyrir skýr verkefni og skipuleggja allar aðstæður. Kennarinn þarf að vera vel skipulagður og börnin þurfa að þekkja það skipulag og ganga að því sem vísu. Frjáls tími og frímínútur skapa angist. „Þú ræður sjálfur“ skapar mikinn kvíða. Félagslegt spjall er mjög erfitt en við reynum að kenna þeim að spjallið hefur gildi fyrir hinn aðilann. Við gætum vel að raddbeitingu og erum ekki höstug. Við segjum fólki hvað það eigi að gera, ekki hvað það á ekki að gera, forðumst að nota orðin ekki og nei.
Kennari þarf að vera bæði fróður og góður. Hann þarf að valda starfinu og líða vel og smita aðra af áhuga sínum og starfsgleði. Ýmislegt er gert til að viðhalda góðum starfsanda og bæta hann. Skólastjórnendur og starfsfólk gerir margt uppbyggilegt og skemmtilegt saman. Reynt er að halda uppi félagslífi og þar er starfsmannafélag í fararbroddi. Farið er í ferðalög, bæði til að fræðast og gleðjast. Höfundi eru minnisstæðar dagsferðir innanlands, t.d. í Landmannalaugar, Árnessýslu, Reykjavík, um Suðurnes o.fl.
Snæbjörn Reynisson var ötull að skipuleggja slíkar ferðir. Eitt sinn fékk hann Guðnýju Snæland, matráð í skólanum, og mann hennar, Hafstein Snæland, til að skipuleggja óvissuferð fyrir allt starfólkið á rútu sem Hafsteinn ók. Var farið til Reykjavíkur og komið þar víða við. Um þá ferð orti höfundur:
Húmorinn í hávegum
er Hafsteinn skemmti fljóðum.
Hann ekur jafnt á óvegum
sem eðlalstrætum góðum.
Guðný mjög er göfuglynd,
gaf hún mola sína.
Okkur hefur hún nú sýnt
höfuðstaðinn fína.
Þetta var nú þeysireið
þökkum við allt saman.
Héldum uppfrædd heimáleið.
Helvíti var gaman!
Vorið 1994 fóru kennarar skólans í fyrsta sinn í kynnisferð til útlanda. Var farið til Danmerkur, þar sem flestir gistu í sumarbústað ættingja eins kennarans. Voru leigðir tveir bílar og ekið í skólaheimsóknir í fimm mjög ólíka skóla, einn á dag. Einn skólinn var óhefðbundinn, á búgarði þar sem nemendur sem ekki gekk vel í hefðbundnu námi, lærðu af bústörfum, t.d. stærðfræði með því að vigta og skammta fóður. Í kaffistofunni héngu landakort á veggjum. Út frá þeim var rætt um heimsins lönd í kaffitímanum, o.s.frv.
Um áratug síðar fór kennaraliðið til bæjarins Gent í Belgíu, einkum til að kynnast þjónustu Belga við innflytjendabörn en þar hafa þeir langa reynslu. Voru heimsóttir skólar, gengið um gróin innflytjendahverfi og kíkt á krár á kvöldin. Tæpum áratug síðar var haldið til New York, m.a. í Harlem-hverfið, veröld sem er býsna ólík okkar. Vorið 2018 var svo haldið til Parísar í skólaheimsóknir, mikla athygli vatki skóli fyrir innflytjendur.
Heimildir: Almenningsfræðsla á Íslandi. Fundagerðir kennarafunda 1981-1989. Aðalnámskrá grunnskóla 2011. Upplýsingar frá Inger Christensen, Höllu Jónu Guðmundsdóttur, Jóni Inga Baldvinssyni og Særúnu Jónsdóttur. Glósur og minningar höfundar úr starfi við skólann 2000–2016.