Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Meiri sameining fyrr en seinna
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 12. febrúar 2021 kl. 06:58

Meiri sameining fyrr en seinna

Fjárhagsstaða flestra sveitarfélaga á Suðurnesjum, og reyndar landinu öllu, hefur versnað mikið vegna Covid-19, tekjur hafa minnkað og útgjöld hækkað. Staðan er verri hjá minni sveitarfélögunum og sem dæmi um það þá var samþykkt í bæjarráði Sveitarfélagsins Voga að skoða valkostagreiningu um sameiningarmöguleika. Vogar eru minnsta sveitarfélagið á Suðurnesjum og hefur þurft að bregðast við verri stöðu, m.a. með lántöku upp á 200 milljónir króna sem nýlega var sagt frá. Bæði Suðurnesjabær og Reykjanesbær gera ráð fyrir neikvæðum rekstrarniðurstöðum á þessu ári. Grindavík er reyndar sér á parti hvað reksturinn varðar og það hefur aldrei heyrst neinn sameiningartónn þar og líklega er langt í hann.

Á næsta ári verða sveitarstjórnarkosningar og þá gætu Vogamenn hugsanlega nýtt sér tækifærið og notað þann vettvang til að heyra hug sinna bæjarbúa, jafnvel Suðurnesjabær líka. Klárað sameiningu fyrir þar næstu sveitarstjórnarkosningar 2026.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í viðtali við Guðbrand Einarsson, forseta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, í blaði vikunnar er hann spurður út í sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna sem var 1994. „Ég tel að það hafi verið mikið gæfuspor og það hefði verið enn betra ef sameininginn hefði orðið enn stærri á þeim tíma. Það hefði gert Suðurnesin miklu sterkari bæði inn á við og út á við. Skilvirknin hefði orðið meiri og nýting fjármuna enn betri. Þróun í þessa átt heldur hins vegar áfram en mun taka einhvern tíma. Fyrir mér er sameining sveitarfélaga algjör forsenda þess að þau geti sinnt þeirri mikilvægu þjónustu sem ætlast er til að þau sinni.“ Undir þetta er hægt að taka hjá forsetanum en í viðtalinu kemur fram hjá honum að verkefni sveitarfélaga hafa stækkað á undanförnum áratugum og starfsemi þeirra öll vaxið og orðið flóknari. Ekki er langt síðan að samþykkt var á Alþingi að lágmarksfjöldi íbúa sveitarfélaga verði hækkaður í skrefum og verði ekki undir eitt þúsund árið 2026. Skýrsla var gerð um sameiningu sveitarfélaga á Vesturlandi á síðasta ári og þar kom fram í könnun meðal íbúa að þeir telji að á næstu árum fækki sveitarfélögum um helming.

Þegar umræða um sameiningu sveitarfélaga var sem hæst, þegar Reykjanesbær varð að einu sveitarfélagi Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna, var ekki mikil eining meðal íbúa langflestra sveitarfélaga á Íslandi, meðal annars í öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum. Þáverandi bæjarstjóri í Sandgerði sýndi t.d. á borgararafundi um sameiningarmál mynd af stórum fiski að éta alla minni fiskana og þannig yrði þetta í framtíðinni að hans sögn. Með upplýstari umræðu, nýjum íbúum og fleiri ástæðum sem hægt væri að nefna er öruggt að tónn í bæjarbúum hvar sem er á landinu er í þá veru að þeir styðji frekari sameiningu. Þeir vita að til að standast kröfur í rekstri sveitarfélaga í dag þarf að huga að hagkvæmni og það gerist með sameiningu, stærri eininga, stærri sveitarfélaga. Það hefur til dæmis sýnt sig að með sameiningu Garðs og Sandgerðis náðist veruleg hagræðing á mörgum sviðum og Suðurnesjabæ gengur mun betur að takast á við verkefnin með sína 3.600 þúsund íbúa í stað tveggja helmingi minni sveitarfélaga Garðs og Sandgerðis í sitt hvoru lagi.

Það er því lag fyrir Suðurnesjabæ að sameinast Vogamönnum, en þar búa rúmlega 1.300 manns, í þessari alvarlegu athugun þeirra að skoða sameiningu. Sameinast Reykjanesbæ sem yrði þá um 25 þúsund manna sveitarfélag. Með Grindavík værum við í svipaðri stærð og Hafnarfjörður, tæplega 30 þúsund. Eitt stórt sveitarfélag á Suðurnesjum með eða án Grindavíkur hlýtur að vera framtíðin og það fyrr en seinna.

Páll Ketilsson