Margt gott í gangi í upphafi árs
Það eru margar góðar fréttir í upphafi nýs árs á Suðurnesjum sem ættu að hafa jákvæð áhrif á atvinnustigið. Þar er hægt að nefna stækkun Reykjanesvirkjunar sem talin er skapa 200 störf á næstu tveimur árum, aukið hlutafé í Isavia þar sem stórframkvæmdir eru að hefjast og munu skapa mörg störf. Þá er hægt að nefna opnun nýs hótels, veitingastaða og heilsuræktarstöðva. Þetta er eitthvað og það í miðju Covid-19.
Við hjá Víkurfréttum fylgdumst með fyrstu bólusetningunum um áramótin og þær héldu áfram í vikunni þar sem eldri borgarar og heilbrigðisstarfsfólk var bólusett í annað sinn. Vonandi gengur bólusetning vel hér og á landinu og auðvitað úti í heimi. Það er það sem við þurfum til að verjast veirunni og geta hafið eðlilegra líf á nýjan leik. Síðustu fréttir eru nokkuð jákvæðar og m.a. þær að búið verði að bólusetja alla 70 ára og eldri ásamt framlínufólki í lok mars. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur með það að ferðaþjónustunni blæðir enn hrikalega út af fjandans veirunni sem er hvergi nærri hætt úti í heimi. Á meðan sú staða lagast ekki, sem hún mun vonandi gera á árinu með bólusetningum, þá lagast ekki hrikaleg staða greinarinnar.
En það eru auðvitað ekki bara góðar fréttir. Í einni frétt okkar í blaði vikunnar er greint frá niðurstöðum úr könnun sem gerð var í 8.–10. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar. Þar kom fram að óvenju hátt hlutfall nemenda hafa prófað eða nota nikótínpúða. Púðarnir eru bannaðir börnum undir átján ára aldri og varað er við notkun þeirra þar sem púðarnir geta verið banvænir. Of stór skammtur getur verið banvænn. Anna Sigríður Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, lagði til að tekið yrði saman forvarnarefni um skaðsemi púðanna og sent í skólana. Það var góð hugmynd því þessir púðar eru ekki góðir.
Málefni hælisleitenda eru til umfjöllunar hjá okkur í blaðinu þar sem við birtum ítarlega bókun velferðarráðs Reykjanesbæjar í fimm liðum um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Í niðurstöðum bókunarinnar segir að velferðarráði Reykjanesbæjar sé ekki stætt á að ganga til samninga við Útlendingastofnun um að Reykjanesbær taki yfir þjónustu í húsnæði á Ásbrú á þeim grundvelli sem stofnunin leggur til. Þá segir Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, að láta þurfi af þjösnaskap sem Útlendingastofnun, sem ríkisstofnun, virðist ætla að beita í samskiptum sínum við Reykjanesbæ. Hann segir Útlendingastofnun taka á leigu húsnæði á Ásbrú án samráðs við sveitarfélagið og í óþökk þess. Þessi ákvörðun Útlendingastofnunar sé ekki til fyrirmyndar og ljóst að þessi mál eru hvergi leyst. Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það að vera hælisleitenda á svæðinu er langt frá því að bæta ímynd Ásbrúar og Reykjanesbæjar og hefur aldrei verið vinsælt mál á svæðinu.
Páll Ketilsson, ritstjóri.