Makríll tekinn að veiðast á ný
Það er svo margt skrítið sem gerist. Fyrir rúmum tíu árum síðan fór makríll að veiðast við landið og þá að mestu í Faxaflóanum og við Keflavík. Veiðarnar jukust ár frá ári þangað til árið 2020 þegar að enginn makríll kom, og árið 2021 var heldur enginn makríll.
Núna í júlí, þegar að strandveiðitímabilið var lokið, voru nokkrir handfærasjómenn sem ákváðu að fara að veiða ufsann sem hefur gengið vel. Einn af þeim var Magni Jóhannsson fyrrum skipstjóri á Breka KE. Hann kláraði strandveiðitímabilið og fór einn róður á ufsann og kom með um 2,7 tonn í land. Hann hafði tekið eftir því að hann varð var við makríl og því ákvað hann að prófa hvort það væri makríll í veiðanlegu magni og jú, það reyndist vera.
Hann kom með 2,7 tonn í land og í kjölfarið þá fjölgaði bátunum sem á makríl eru og hefur veiðin hjá þeim verið nokkuð góð. T.d. Birna BA með 11,3 tonn í sex róðrum, Svala Dís KE 10 tonn í fimm róðrum, Tjúlla GK 22,5 tonn í sex róðrum og mest fimm tonn, Sigrún SH (sem áður var Addi Afi GK) 4,2 tonn í þremur róðrum, Stakasteinn GK 1,5 tonn í tveimur, en um borð í þeim báti er Hjörtur Jóhannsson sem er bróðir Magna, og síðan Jói BA með 1,1 tonn. Ragnar Alfreðs GK 4,2 tonn í tveimur róðrum en auk þess var báturinn með 5,3 tonn í einni löndun af ufsa. Auk þessara báta hefur einn bátur frá Ólafsvík veitt makríl og er það Júlli Páls SH sem er með 13,6 tonn í fjórum róðrum. Semsé makríllinn er kominn aftur í einhverju mæli þó enginn mokveiði sé en samt einhver veiði.
Bátunum sem eru að eltast við ufsann á handfærin hefur fjölgað mjög mikið og hefur þeim gengið ansi vel. Lítum á nokkra; t.d. Addi Afi GK með 11 tonn í tveimur róðrum, Margrét GK 11 tonn í þremur róðrum, Sunna Líf GK 4,8 tonn í einum, Sara ÍS 3,7 tonn í einum, Guðrún GK 90 10 tonn í þremur róðrum, Sindri GK 4,5 tonn í einum, Von GK 3,3 tonn í einum, Snorri GK 7,5 tonn í þremur róðrum og Arnar ÁR 5,8 tonn í þremur. Allir þessir bátar voru að landa í Sandgerði.
Dragnótabátunum hefur fjölgað aðeins því að Nesfiskbátarnir eru komnir af stað og Ísey EA er líka komin á veiðar og hefur veiðin verið nokkuð góð. T.d. Siggi Bjarna GK með 70 tonn í fimm róðrum og mest 35 tonn, Sigurfari GK 56 tonn í fjórum og mest 31 tonn, Ísey EA 9,1 tonn í tveimur og Benni Sæm GK 7,8 tonn í tveimur. Allir að landa í Sandgerði.
Nú má segja að þeir fáu netabátar sem róa frá Suðurnesjum séu komnir á veiðar. Tveir bátanna eru að eltast við ufsann; Grímsnes GK sem er kominn með 85 tonn í fimm róðrum og Erling KE 39 tonn í fjóðrum róðrum. Maron GK er kominn með 38 tonn í tíu róðrum og Halldór Afi GK 18 tonn í níu róðrum báðir í Keflavík/Njarðvík og þarna uppistaðan þorskur. Einn netabátur er í Grindavík og er það Hraunsvík GK sem er með 14 tonn í fimm róðrum og af því var þorskur 9 tonn hitt var mjög blandaður afli sem Hraunsvík GK var með.