Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Magnaðar lífsreynslusögur Suðurnesjamanna
Föstudagur 26. febrúar 2021 kl. 07:44

Magnaðar lífsreynslusögur Suðurnesjamanna

Víkurfréttir hafa í fjörutíu ár hitt Suðurnesjamenn sem hafa alltaf haft sögu að segja. Í þessu tölublaði segjum við meðal margs annars sögu sjómannsins, olíuflutingabílstjórans og þjóðlagasöngvarans Marteins Ólafssonar, Matta Óla. Í ítarlegu spjalli við segjum sögu hans í blaðinu og einnig að hluta í Suðurnesjamagasíni. Tálknfirski Sandgerðingurinn hefur tvisvar lent í sjávarháska þar sem hann var í verulegri hættu og varð síðan að hætta á sjó. Varð olíuflutningabílstjóri og reyndi við góðærið í eigin rekstri en lenti illa í því og tapaði aleigunni. Þá missti hann foreldra, eiginkonu og son á fjórum árum sem reyndi mikið á okkar mann. Hann náði sér út úr þungum raunum og segir okkur frá því. Í olíuakstrinum lenti hann svo í alvarlegu óhappi þegar hann velti stórum flutningabílnum með 40 þúsund bensínlítra í tönkunum. Vaknaði liggjandi í bílstjórasætinu, horfði til himins og hélt að hann væri kominn þangað. Þrátt fyrir ýmis áföll horfir hann björtum augum á tilveruna og segist aldrei hafa liðið eins vel. Hann er enn við olíuakstur en notar frítímann til að spila á gítarinn og gaf út sína þriðju hljómplötu 20. febrúar. Saga Matta Óla er lygileg en sönn engu að síður. Það var magnað að hitta hann og ljóst að hann býr yfir miklum styrk þrátt fyrir mörg áföll.

Í öðru viðtali í blaði vikunnar við Guðbjörgu Glóð kemur önnur mögnuð saga en þessi unga kona hefur nú í tuttugu ár rekið eina vinsælustu fiskbúð landsins, Fylgifiska. Guðbjörg er dóttir Loga Þormóðssonar heitins og Bjargeyjar Einarsdóttur en þau hjón voru frumkvöðlar í útflutning á ferskum fiski. Guðbjörg Glóð ræðir uppeldið, fráfall föður síns og rekstur fiskbúðarinnar og uppvaxtarárin í Keflavík við Eyþór Sæmundsson en ítrarlegra spjall þeirra má heyra í hlaðvarpinu Góðar sögur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á erfiðum veirumtímum sveitarfélagaa birtist ljós í rekstri Reykjanesbæjar þegar bæjarstjórinn kláraði endurfjármögnun á 8 milljarða láni vegna fasteigna sem voru í eigu Eignarhaldsfélagsins Fasteignar. Með endurfjármögnun sparast um 200 milljónir króna á ári næstu fimmtán árin. Grunnskólar, leikskólar og íþróttamannvirki verða í framhaldinu í eigu Reykjanesbæjar. Það er óhætt að segja að það hafi tekist vel til í endurreisn fjármála bæjarfélagsins á síðustu árum. Það féll eflaust í skugga heimsfaraldurs en í ljósi betri fjárhagsstöðu telja forrráðamenn bæjarfélagsins að það hafi gengið betur að takast á við afleiðingar veirunnar.

Suðurnesjamenn hafa ekki verið alls kostar ánægðir með gang mála hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja á undanförnum árum og áratugum. Ástæðurnar eflaust margvíslegar. Nú eru uppi hugmyndir hjá einkaaðilum á svæðinu að setja upp einkarekna heilsugæslustöð og spurði Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins heilbrigðisráðherra út í afstöðu hennar til þess, hvort ekki væri tilvalið að fara þá leið en hún hefur gengið vel á höfuðborgarsvæðinu. Í svari ráðherra kemur fram að hún vill fara varlega í þeim efnum en leggur þó áherslu á að ljúka við byggingu nýrrar heilsugæslu HSS á næstu árum. Vitað er um mikinn áhuga hjá aðilum í Reykjanesbæ sem eru komnir vel á veg með vinnu í að koma á fót einkarekinni heilsugæslu í bæjarfélaginu. Eru komnir með húsnæði og eru bjartsýnir á verkefnið. Vonandi gengur það vel. Það er deginum ljósara að þörf er á aukinni heilsugæslu og það fyrr en seinna.

Páll Ketilsson.