Lokaorð: Leit að leiðtoga!
Það er kreppa. Ástæðuna þarf ekki að ræða. Við erum því miður ekki stödd í lélegri B-mynd frá Hollywood.
Kreppur eru þó ekki bara neikvæðar. Nú reynir á hugmyndaauðgi frekar en bara „business as usual“. Við eigum að standa saman í að skipuleggja betra líf.
Logi Bergmann tók nýlega viðtal við Vigdísi Finnbogadóttur þar sem spilaðar voru gamlar klippur úr kosningabaráttu Vigdísar árið 1980. Hún þurfti þar, sem kona, að berjast við alls kyns fordóma. Hún var meðal annars spurð að því hvort það ætti að kjósa hana sem forseta því hún væri kona. Vigdís svaraði snilldarlega. Nei, það á að kjósa mig því ég er maður.
Í þessu svari fæddist leiðtogi. Forseti sem sat farsællega í sextán ár og þeir sem sinnt hafa embættinu síðan hafa ekki komist með tærnar þar sem hún var með hælana.
Við höfum á undanförnum misserum farið yfir málefni Suðurnesja og ástandið á Suðurnesjum. Alltaf virðumst við verða útundan þegar kemur að fjárveitingarvaldi ríkisins. Mun minni fjármunum er úthlutað á þessu svæði heldur en annars staðar. Þúsundir misstu vinnuna þegar herinn fór. Hvað var gert? Þegar hundruð manns misstu vinnuna við fall WOW air var skellt á einu eða tveimur námskeiðum hjá Símenntun Keilis. Baráttan fyrir tvöföldun Reykjanesbrautarinnar hófst fyrir tuttugu árum. Verkinu er enn ekki lokið.
Gæti verið að hið raunverulega svar væri ekki að finna hjá ríkisvaldinu og áhugaleysi þeirra á Suðurnesjum, heldur að staðreyndin sé sú að á Suðurnesjum er ekki að finna einn einasta leiðtoga sem heldur merki svæðisins á lofti.
Fjögur sveitarfélög með samtals um 30.000 íbúa sem ganga á engan hátt í takt. Samband sveitarfélaga með engan slagkraft. Og umfram allt enginn leiðtogi.
Við ættum kannski að hefja leikinn á heimavelli áður en við kvörtum, sameinast um hvað við viljum og ganga svo hart fram í að heimta það.
Framkvæmdir á fullt í Flugstöðinni. Ferðamennirnir koma aftur. Innanlandsflugið á Keflavíkurflugvöll. Ljúkum tvöföldun Reykjanesbrautarinnar alla leið ekki seinna en strax. Byggjum upp alvöru heilsugæslu fyrir öll Suðurnesin. Sameinum svo sveitarfélögin og hættum þessu rugli.