Lítil sem engin rækja hefur mælst við Eldey á þessari öld
Já, aldrei þessu vant þá er sumarið árið 2024 að renna í gang. Eða svona næstum því. Kannski kærkomið að fá gott sumar þetta árið þó svo að veturinn hafi nú ekki verið það erfiður, í það minnsta var mun meiri snjór árið 2023 en er núna þetta árið.
Þó svo að veturinn hafi ekki verið það þungur og erfiður hjá okkur þá minnir móðir náttúra ennþá á sig og núna er eldgos sem enginn sér endann á búið að malla við Grindavík.
Bærinn allur í sprungum en smávegis líf er búið að vera í höfninni í Grindavík og helst eru það bátarnir frá Einhamri sem hafa verið að landa þar. Þeir eru reyndar orðnir kvótalitlir og verður því væntanlega róleg sjósókn hjá Einhamarsbátunum núna í sumar. Af Einhamarsbátunum er Gísli Súrsson GK með 46 tonn í fjórum róðrum, Vésteinn GK 42 tonn í fjórum og Auður Vésteins SU 36 tonn, líka í fjórum róðrum og öllu landað í Grindavík.
Óli á Stað GK, sem að Stakkavík ehf. gerir út, lenti í bilun seint í mars og var dreginn til hafnar í Njarðvík þar sem um 9 tonnum af fiski var landað úr bátnum, síðan fór báturinn í slipp í Njarðvík og er ennþá þar þegar þessi pistill er skrifaður.
Í Njarðvíkurhöfn liggur nýjasti bátur Stakkavíkur, Margrét GK, en ráðgert er að hann muni fara til veiða á nýju fiskveiðiári, semsé í september núna árið 2024.
Dragnótabátarnir hafa veitt nokkuð vel og eru allir þrír Nesfisksbátarnir komnir með yfir 100 tonna afla. Siggi Bjarna GK 115 tonn í átta róðrum og mest 18 tonn í róðri, Sigurfari GK 109 tonn í átta og mest 19,4 tonn í róðri og Benni Sæm GK 101 tonn í átta róðrum og mest 17,8 tonn í róðri. Aðrir dragnótabátar eru Aðalbjörg RE með 40 tonn í sex róðrum og Maggý VE með 35 tonn í fjórum róðrum.
Pálína Þórunn er loksins komin á veiðar en báturinn var búinn að vera í slipp síðan í janúar á þessu ári. Báturinn hefur landað um 139 tonn í tveimur róðrum, fyrst í Þorlákshöfn og síðan 69 tonnum í Sandgerði. Reyndar var Pálína Þórunn GK að sigla frá Hafnarfirði þegar þessi pistill var skrifaður, líklega hefur báturinn landað þar en aflatölur um þá löndun voru ekki komnar þegar ég skrifaði þetta. Samt frekar skrítið að sigla framhjá sinni heimahöfn til þess að landa í Hafnarfirði en heimahöfn bátsins er í Sandgerði.
Sóley Sigurjóns GK er á Siglufirði á rækjuveiðum og komin með 125 tonn í þremur róðrum, mest 52 tonn í róðri. Af þessum afla eru 55 tonn af rækju sem öll er unnin í Meleyri á Hvammstanga.
Rækjuverksmiðjan á Hvammstanga er ein af þremur rækjuverksmiðjum í landinu sem ennþá eru starfandi. Hinar eru á Siglufirði og Ísafirði. Verksmiðjurnar voru fjórar en verksmiðjunni á Hólmavík var lokað árið 2022.
Á Suðurnesjum er saga rækjuvinnslu nokkuð löng en segja má að Sandgerði hafi verið fyrsti bærinn á Suðurnesjum til að hafa rækjuvinnslu en það var líka smá rækjuvinnsla í Garðinum. Lengst af voru Saltver ehf. í Njarðvík og Rækjuvinnsla Óskars Árnasonar í Sandgerði stærstu rækjuverksmiðjurnar á Suðurnesjunum. Báðar þessar vinnslur skiptu aflanum sem kom frá veiðum við Eldey nokkuð jafnt á milli sín.
Eldeyjarrækjuveiðin var stoppuð af árið 1997 en árin þar á undan var mokveiði á Eldeyjarrækjunni, sérstaklega árið 1996 þegar til dæmis Sigurður Friðriksson, eða Diddi Frissa, mokveiddi rækju á Guðfinni KE og náði að veiða um 290 tonn af rækju sumarið 1996, sem er vægast sagt ótrúlega mikill afli. Mokið hjá Guðfinni KE var oft það mikið að báturinn kom til hafnar í Sandgerði með lestina fulla af rækju, móttakan full, þvottakar og poki á dekkinu líka með rækju. Mest komu tæp 11 tonn af rækju í einni löndun úr Guðfinni KE.
Núna á þessari öld hefur lítil sem engin rækja mælst við Eldey.