Lífið er ekki nammi
Fyrir nokkrum vikum átti ég fróðlegt samtal við góða konu, hjúkrunarfræðing, þar sem við vorum að ræða uppeldi barna. Hún furðaði sig á hversu margar skipanir börn fá yfir daginn en á sama tíma vilji foreldrar ala upp sjálfstæða einstaklinga. „Af hverju erum við ekki duglegri við að leyfa börnum að velja? Við tökum flestar ákvarðanir fyrir þau eða þá að við leyfum þeim að velja og breytum svo því sem þau völdu.“
Á mínu heimili hefur einhverra hluta vegna komist á sá siður að velja heldur þriðja óuppgefna kostinn. „Viltu fiskibollur eða spagettí í kvöldmat?“ „Kjúkling.“ „Viltu fara í buxur eða pils?“ „Stuttbuxur.“ Það sem einkennir þó okkar kynslóð uppalenda er að við erum alltaf að reyna vanda okkur og gera betur, betur í dag en í gær. Ég hef því haft þetta með valið á bak við eyrað og reyni eftir fremsta megni og innan skynsamlegra marka að leyfa börnunum mínum að velja, þó svo að það þýði að við séum stundum með kornhringi og kókókúlur í kvöldmat.
Í sumar var svo útskrift hjá elsta hópnum á leikskólanum Gimli og ég auðvitað búin að kaupa dress á útskriftarbarnið, lagði það smart á rúmið hennar og bauð henni að velja annaðhvort buxur eða sokkabuxur undir pils. Ég fór í sturtu, signdi mig á leiðinni og bað í hljóði um að heppnin yrði með mér í þetta skiptið – og beið eftir að hún sæi fötin ...
Dóttur minni hefur alltaf fundist best að fá að klæða sig sjálf og vill helst líta út eins og regnboginn sjálfur. Ég stíg inn í sturtuna ... og þá heyrist: „MAMMA, ég ætla ekki að fara í þessu!“ Oh hugsa ég með mér, þá hefjast samningaviðræðurnar. Ég reyni að gefa henni góð rök fyrir því að þetta sé einmitt dressið sem hún vilji útskrifast í. Hún valdi meira að segja hluta af því sjálf og þetta er bara dálítið smart. Nei, nei og aftur nei. Allir krakkarnir í leikskólanum eru búin að ákveða sjálf í hvað þau ætla og hún ætlar að gera það líka.
Jæja, þá verðum við að reyna hina aðferðina. Tala við hinn heilann. Þennan sem staðsettur er í maganum. Ég er ekki stolt af því sem hér á eftir kemur en stundum þarf bara að grípa til örþrifaráða. Ég gæist á hana út undan sturtuhenginu með sápufroðuna í hárinu, set upp risastórt sparibros og hálfhvísla: „Eeeeen ef við kaupum nammi og kleinuhring eftir útskriftina? Værirðu þá til í að fara í fötin?“
„Mamma,“ segir hún og horfir á mig sínum stóru brúnu augum, alvarleg á svip, „Lífið er ekki bara nammi og kleinuhringir!“
Ég játaði mig þar með sigraða. Hún fór og valdi sér dress fyrir þennan mikilvæga dag. Bleikur brúðarmeyjarkjóll og loðkápa urðu fyrir valinu ásamt gylltum hælaskóm, svartri spöng og litríku glingri. Svo kom hún fram hæstánægð og spurði: „Mamma, er ég ekki fín?“
„Jú elsku stelpan mín,“ sagði ég, „þú ert rosalega fín.“