Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Landa á Norður- og Austurlandi en aka aflanum til Grindavíkur
Föstudagur 11. september 2020 kl. 12:33

Landa á Norður- og Austurlandi en aka aflanum til Grindavíkur

Jæja, september kominn af stað og svo til allur flotinn er kominn á veiðar – en þó með smá breytingum.

Þó aðallega í Grindavík því fyrirtækin Þorbjörn ehf. og Vísir ehf. hafa fækkað línubátum sínum og fengið togara eða togbát í staðinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Vísir hætti að gera út Kristínu GK og seldi, heitir hann í dag Steinn GK og er orðinn blár á litinn. Í staðinn þá fengu þeir togarann Bylgju VE sem hefur hafið veiðar.

Hjá Þorbirni ehf. var línubátnum Sturlu GK lagt og keyptur 29 metra togbátur í staðinn sem hefur fengið nafnið Sturla GK. Sá bátur hóf veiðar um miðjan ágúst og núna í september er Sturla GK búinn að landa 25 tonnum í einni löndun og það í heimahöfn sinni Grindavík.

Það er nefnilega nokkuð sérstakt að stóru línubátarnir eru núna á þessum haustmánuðum að landa á Norður- og Austurlandi og er mestum hluta af fiskinum ekið til Grindavíkur til vinnslu. Aftur á móti eru togbátarnir að landa í heimahöfn.

Eins og nefnt var með Sturlu GK og líka með Pálínu Þórunni GK sem kom til Sandgerðis með 23 tonn í einni löndun. Reyndar var Pálína Þórunn GK að landa á Siglufirði í ágúst.

Enn sem komið er þá er enginn línubátur frá Suðurnesjunum að róa héðan og landa en það gæti orðið breyting á því núna í september, kemur í ljós seinna. 

Addi Afi GK er kominn á Skagaströnd og landaði þar 4,3 tonnum í einni löndun. Tjúlla GK er í Bolungarvík og kom með 850 kíló á handfærum í einni löndun.

Hjá minni línubátunum núna í byrjun september þá er Daðey GK kominn með 18 tonn í þremur á Breiðdalsvík, Dúddi Gísla GK 12,2 tonn í tveimur á Skagaströnd, Beta GK 7,1 tonn í þremur og Óli G GK sjö tonn í þremur, báðir á Siglufirði. Margrét GK og Dóri GK eru á Neskaupstað.

Ragnar Alfreðs GK er ennþá á handfærum og er á Skagaströnd, hann landaði þar 1,2 tonni í einni löndun og Bergur Vigfús GK er líka á handfærum en í Bolungarvík og landaði þar 1,1 tonni í einni. 

Þar sem að Berglín GK er komin í slippinn í Njarðvík þá er Sóley Sigurjóns GK eftir á rækjuveiðum og hefur núna í september landað 17,3 tonnum í einni og af því var rækja 12,7 tonn. 

Netaveiðin var mjög góð núna í júlí og ágúst og þessir fyrstu dagar í september bera vott um að netaveiðin haldi áfram að vera góð, þá sérstaklega hjá Grímsnesi GK sem er á ufsaveiðum því í tveimur róðrum hefur báturinn landað 49 tonnum og er ufsi af því 47 tonn.

Af hinum netabátunum þá er Maron GK með 19 tonn í fjórum róðrum, Halldór Afi GK 10 tonn í fjórum, Hraunsvík GK 5,6 tonn í þremur og Langanes GK er kominn á veiðar en hann var frá veiðum allan ágúst eftir eldsvoða sem upp kom í bátnum í lok júlí síðastliðnum. Reyndar byrjar Langanes GK frekar rólega, aðeins 2,4 tonn í tveimur róðrum.