Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Komust klakklaust til hafnar í arfavitlausu veðri
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 11. febrúar 2022 kl. 10:05

Komust klakklaust til hafnar í arfavitlausu veðri

Þá er stysti mánuður ársins kominn í gang og hann byrjar með látum því að – já, áfram eru veður vond.

Reyndar gaf á sjóinn fyrstu dagana í febrúar og þeir bátar sem á sjóinn fóru þeir veiddu nokkuð vel og skulu nokkrir vera nefndir hér. Sævík GK með 27 tonn í fjórum róðrum, landað í Grindavík og Þorlákshöfn. Báturinn fór seinni tvo róðranna með línuna við suðurströndina skammt utan við Vestmannaeyjar. 

Daðey GK 21 tonn í þremur, Hópsnes GK 22 tonn í þremur róðrum en Hópsnes GK komst loksins suður núna um síðustu mánaðarmót, hann ásamt Gulltoppi GK komu saman frá Skagaströnd og hófu strax róðra frá Sandgerði. Fyrsti róðurinn hjá Hópsnes GK var ansi góður því báturinn kom með í land 11,1 tonn sem fengust á 36 bala, það gerir um 305 kg á bala. Margrét GK 28 tonn í fjórum, Katrín GK 9,9 tonn í tveimur, Dóri GK fimm tonn í einum, Gulltoppur GK 5,1 tonn í einum og Dúddi Gísla GK 18,4 tonn í tveimur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hjá netabátunum byrjar febrúar vel þrátt fyrir veður. Erling KE er kominn með 65 tonn í þremur róðrum og mest 28 tonn, landað í Sandgerði. Maron GK 22 tonn í tveimur, landað í Njarðvík, en hann var á veiðum á svipuðum slóðum og Erling KE. 

Grímsnes GK 39 tonn í þremur og mest 23 tonn en Grímsnes GK er að eltast við ufsann, af þessum afla eru 29 tonn af ufsa. Halldór Afi GK fjögur tonn í tveimur og Bergvík GK 3,1 tonn í tveimur.

Hjá dragnótabátunum er í raun ekkert að frétta. Nesfisksbátarnir hafa ekkert farið á sjóinn og einu dragnótabátarnir sem hafa farið á sjó eru Aðalbjörg RE og Maggý VE frá Vestmannaeyjum en skipstjóri þar um borð er Karl Ólafsson sem lengi var með Örn KE. Báðir bátarnir eru að landa í Sandgerði en þegar þessi pistill var skrifaður voru aflatölur ekki komnar inn fyrir báða bátana.

Að ofan er aðeins minnst á bátinn Hópsnes GK. Þessi bátur er 29 tonna plastbátur sem lengst af hét Katrín SH og réri þá á netum frá Rifi og Arnarstapa. Stakkavík ehf. í Grindavík keypti bátinn fyrir rúmu ári síðan og á bátnum eru Ívar Þór Erlendsson skipstjóri og Axel W. sem rær með honum. Axel átti t.d. Nýja Víking NS og Gjafar GK. Á meðan að svo til allir 30 tonna bátarnir voru á leið í land eftir línuveiðar þá fóru þeir út frá Sandgerði um kl. 15:30 með 24 bala og fór beint norður út frá Sandgerði á hina hefbundnu línuslóð sem er þar fyrir utan. 

Eins og lesendur Víkurfrétta tóku kannski eftir þá var kominn snarvitlaust veður um nóttina 6. til 7. febrúar og þeir Ívar og Axel kláruðu að draga alla 24 balanna um miðnætti og þá átti eftir að sigla til Sandgerðis. Veður var þá tekið að versna og eins og Ívar sagði að það var komið „arfavitlaust veður“. Sigling til Sandgerðis gekk hægt því aldan kom beint á móti þeim og því tók Ívar þá ákvörðun að beina bátnum áleiðis að Hvalnesi og með því fengu þeir ölduna á bakborðshlið Hópsnes GK og þannig gátu þeir sloppið við að fá brot beint framan á bátinn.

Upp úr klukkan hálf tvö komust þeir klakklaust til Sandgerðishafnar og þegar þeir komu í land voru þeir eini báturinn á landinu í þessum stærðarflokki sem hafði þá verið á sjó um kvöldið. Áttin var suðaustan og í þeirri átt er vindur að blása frá landi út yfir Sandgerði og það gerir það að verkum að þegar komið er nær landi er sjórinn nokkuð lygn og innsiglingin til Sandgerðis lokast ekki í suðaustan átt.

Bara vel gert hjá þeim félögum og um borð í bátnum var um 5,5 tonn sem gerir um 230 kg á bala sem er bara ansi góður afli.