Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Pistlar

Klefamenning
Föstudagur 10. september 2021 kl. 14:05

Klefamenning

„Normaliseringin fyrir kvenfyrirlitningu byrjar í búningsklefanum.“ Þessi merkilega setning rann af vörum frumkvöðuls í kynjafræði og jafnréttisfræðslu eins og um heilagan sannleik væri að ræða í Kastljósþætti fyrir nokkru. Ég er alinn upp í svona búningsklefamenningu, eins og fjöldi annarra karlmanna sem stundað hafa boltaíþróttir. Þessi staðhæfing er ein mesta þvæla sem ég hef á ævinni heyrt. Mér þykir leitt að fjöldi karlmanna hafi ekki stigið fram og vísað á bug staðhæfingum um að búningsklefamenning í boltaíþróttum ali á kvenfyrirlitningu.

Það er öðru nær – en það vita þeir sem tekið hafa þátt í menningunni. Það má vel vera að innan íþróttahreyfingarinnar finnist skemmd epli en þau er að finna í öllum stigum þjóðfélagsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fjölskylda mín hefur stutt ötullega við íþróttastarfssemi í Reykjanesbæ í fjölda ára. Mínum bestu vinum á lífsleiðinni hef ég kynnst í gegnum íþróttir. Ég fylgst með fjölda ungmenna vaxa og dafna innan íþróttahreyfingarinnar og það sem íþróttir gera fyrst og fremst – þær búa til betra fólk. Betri einstaklinga. Íþróttir efla félagslegan þroska. Innan íþróttahreyfingarinnar lærir fólk að takast á við lífið. Fjöldi fólks sem hefur náð langt í íþróttum hefur nær oftar en ekki náð langt í lífinu.

Flestallir sem þetta lesa hafa einhvern tíma á lífsleiðinni verið þátttakendur í viðburðum sem reknir eru undir regnhlíf íþróttahreyfingarinnar, farið á landsleik, tekið þátt í Nettó móti í körfu, N1-móti í fótbolta, Tommamóti í Vestmannaeyjum, Símamóti í Kópavogi eða fjölmörgum öðrum viðburðum  sem reknir eru af myndarskap innan íþróttahreyfingarinnar.

Ekki hef ég nokkru sinni orðið var við það að innan íþróttahreyfingarinnar almennt grasseri einhver „ofbeldismenning“. Það er fáránlegt að halda því fram – og það er óþolandi að fylgjast með umræðunni og enginn spyrni við fótum og leiðrétti þennan málflutning.

Það er óþarfi að lita alla íþróttahreyfinguna þó innan hennar finnist svartir sauðir. Þeir eru alls staðar.