Í skólanum hjá Viktoríu
Guðrún Lovísa Magnúsdóttir, kölluð Lúlla (f. 1922, d. 2021, er sextán ára á myndinni), gekk fjögur ár í skólann hjá Viktoríu, tíu til fjórtán ára. Hún segir svo frá (2006 og 2012): Börnin borðuðu og tóku lýsi heima og höfðu með sér mjólk og brauð pakkað inn í dagblaðið Tímann. Eldri deildin mætti á morgnana kl. 8:30 og fóru heim 14:30 en yngri deild kl. 9:30 og heim 15:30. „Það var heilmikill kolaofn þarna, það var alltaf hlýtt þegar við komum. Hún Viktoría hafði alltaf vinnukonu á þessum tíma.“ Kennaranum var heilsað með handabandi. Lásu svo saman faðir vor á morgnana og sungu kvæði eða sálm áður en skóla lauk og Viktoría var forsöngvari.
„Það var ein kennslustofa, eldri deildin (tveir árgangar) sátu í gluggaröðinni, tvö saman við borð sem í var ein hilla og setbekkurinn fastur við borðið, þau yngri tvö saman eftir miðju gólfi. Lærðum lestur að mestu heima áður en byrjað var í skóla, svo skrift, teikningu, reikning, biblíusögur, landafræði, Íslandssögu, málfræði, náttúrufræði og kvæði. Úti lékum við okkur í kýlubolta, síðasta, sto, stórfiskaleik, hlaupa í skarðið og eitt par fram fyrir ekkjumann. Þegar slæmt var veður sátum við stelpurnar uppi á borðum og sungum en strákarnir frammi á gangi. Viktoría bjó í norðurendanum. Síðasta veturinn minn var Stefán Hallsson aðstoðarkennari og hjá honum æfðum við söng, hann spilaði á orgel. Í útiganginum var vatnstunna, sem borið var vatn í úr brunni. Við tunnuna var borð eða kassi þar á stóð vatnsfata með emeleraðri ausu í og máli ef við yrðum þyrst. Úti var kamar – og klósettpappírinn dagblöð. Þetta voru yndisleg fjögur ár.“
Lúlla var 25 mínútur að ganga í skólann, frá Sjónarhóli. Stefán frá Litlabæ gekk – öllu heldur hljóp – eins og raketta, þrisvar sinnum lengri leið! Guðmundur Björgvin kom frá Brekku undir Vogastapa, gekk einn að Vogum og þaðan í fylgd með fleiri krökkum. Meira en klukkustundar gangur, fór eftir hvernig stóð á sjávarföllum, hvort hann gat stytt sér leið yfir sandinn.
Lúlla man ekki eftir einelti en það voru tveir strákar svolítið óþekkir, svolitlir grallarar. Þeir voru settir á stól til hliðar. Þar sátu þeir og geifluðu sig framan í okkur hin. Við vorum aldrei slegin með priki eða flengd en Árni Theódór hafði gert það. Stelpurnar reyndu að hengja öskupoka á strákana á öskudaginn. Lúlla átti ekki kærasta fyrr en eftir skólagöngu en sá kærasti varð maður hennar, Guðmundur Björgvin. Þau áttu tólf börn og settu svip á Vatnsleysustrandarhrepp sem nú heitir Sveitarfélagið Vogar. Viktoría var indæl kona og vel til fara, gerði þetta allt vel.
Viktoría hélt dagbók skólans. Skoðum hér nokkrar færslur.
Fyrsta október 1926 var skólinn settur. Viðstödd voru öll þau börn er ganga eiga í skólann þetta skólaár (23 talsins). Í eldri deild (tólf og þrettán ára) voru Torfhildur Torfadóttir, Gerður Guðmundsdóttir, Unnur Þórarinsdóttir, Guðm.Björgvin Jónsson, Óskar Eyjólfsson, Anna M. Elíasardóttir, Ragnhildur Magnúsdóttir, Loftur Árnason, Guðm. M. Jónsson, Guðm. Skarphj. Kristjánsson, Guðm. Ólafsson og Guðrún Magnúsdóttir.
Í yngri deild (tíu og ellefu ára) voru Ásgeir Sæmundsson, Einar Guðmundsson, Ingibjörg Erlendsdóttir, Margrjet Jónsdóttir, Maríanna Elíasardóttir, Guðrún Ólafsdóttir, Ingvar Benjamínsson, Guðm. Ragnar Ágústsson, Símon Kristjánsson, Ólafur Erlendsson og Klemens Sæmundarson.
„Athöfnin hófst með því að sunginn var sálmurinn: Ó Jesú bróðir besti. Kennari skólans, Viktoría Guðmundsdóttir, ávarpaði síðan börnin, óskaði þau velkomin og talaði til þeirra hvatningarorðum. Afhenti hún skólanum þrjár myndir, gefnar af dönskum manni. Kristsmynd allstóra, tekna eftir höggmynd Thorvaldsens, og smærri myndir af konungshjónunum Friðriki VIII og drottningu hans, Lovísu. Valdi kennari sjer Kristsmyndina að ræðuteksta. – Síðan voru sungin versin: Vertu, Guð faðir, faðir minn, og fyrsta vers sálmsins Á hendur fel þú honum.
Kennari leitaði síðan venjulegra upplýsinga um nöfn, aldur, og kunnáttu nýkomnu barnanna, og prófaði þau í lestri. Skýrði frá því, að næst yrði kennt mánudaginn næstkomanda. Fór síðan hver til síns heima.“
Síðan var kennt alla sex daga vikunnar, nema laugardaginn 2. október en þá var hlutavelta, 11. október fékk kennarinn leyfi, 12. október voru gólfin olíuborin og laugardaginn 16. október var hreppsfundur í húsinu. 22. október eftir kl. 2 var læknisskoðun á börnum, kennara og skólahúsi. Ekkert athugavert um heilsufar. Daginn eftir var kjörfundur í húsinu og mánudaginn 25. var ekki heldur kennt því húsið var óhreint eftir dans. Laugardaginn 30. var ekki kennt því mjólkurfélagsfundur var í húsinu.
Siðan kom fjöldi venjulegra skóladaga en 1. desember var „kennt tvær stundir (eldri deild saga og skrift, yngri deild handavinna) og börnunum síðan skemmt með sögum og myndum. Dagsins minnst með stuttri tölu og sálmasöng.“ 16. desember var ófært veður og ekkert kennt. Skráð er hvern dag hvort barn er veikt eða fær leyfi.
Hlaupum nú hratt yfir sögu en þessu skólaári lauk með vorprófum 6. og 7. apríl. Skólanum var sagt upp 9. apríl, viðstödd voru öll skólabörnin, handavinnukennari skólans og nokkrar konur.
22. des. 1927 „Munnlegt próf hjá eldri deild til kl. 2. Barnastúkufundur eftir það. Í lok fundarins var jólanna minnst á venjulegan hátt. Börnin sungu jólasálma, kennari las upp jólasögu og talaði nokkur orð til barnanna um hátíðina og þýðingu hennar og las að síðustu jólaguðspjallið. Síðan var gefið jólaleyfi til 3. janúar 1928.
Ráðgert hafði verið að kennsla skyldi hefjast aftur 3. janúar 1928. Það fór á annan veg, því að þann dag fór fram jarðarför barnsins Ingvars Benjamínssonar, er látist hafði í jólaleyfinu (orðið úti). Næsta dag var leyfi en ákveðið að kennsla skyldi aftur hefjast 5. janúar kl. 11 f. hádegi. ... Þá komu átta börn.
Ekki kennt 6. janúar en kl. 5 e. hád. hafði kvenfjelagið „Fjóla“ jólatrje fyrir börn og fullorðna í skólahúsinu.“
Nikulás Sveinsson frá Hábæ, sem var nemandi um 1940, segir svo: „Viktoría las fyrir okkur kafla úr spennandi bók eftir Selmu Lagerlöv, einu sinni í viku, til að vekja áhuga okkar á bókmenntum og biðum við spennt eftir hverjum kafla. … Okkar ástsæli kennari, Viktoría Guðmundsdóttir, lagði sig alltaf í hádeginu og svaf stundum yfir sig (smávegis) og þá gátum við ólátast úti svolítið lengur – bara gaman.“
Viktoría var geðprýðismanneskja og alvörugefin en dálítið seinlát, „hafði einstakt lag á krökkunum, maður heyrði hana aldrei byrsta sig neitt“, segir nemandi hennar og heimilisvinur, Ása Árnadóttir, f. 1932.
Veturinn 1948 til 1949 starfaði skólinn í tveimur deildum með 28 nemendum. Í eldri deildinni voru þrettán börn en fimmtán í þeirri yngri. Kennarar við skólann voru þeir sömu og í fyrra, þau Viktoría Guðmundsdóttir, skólastjóri, og Jón H. Kristjánsson, kennari. Jón ók börnunum daglega að og frá skóla en þann vetur var það erfiðleikum bundið, vegna kulda og snjóa. Ingibjörg Erlendsdóttir, kennari, var prófdómari þetta vor. Börn yngri en níu ára voru í vorskóla í maí.
Heimildir: Handskrifuð dagbók skólans. Óbirtar endurminningar Guðrúnar Lovísu og myndbandið Lúlla á Grunni Suðurkotsskóla í apríl 2010; Fréttir frá skólunum, Faxi, í júní 1949. Nikulás Sveinsson, á fb-síðu Brunnastaðaskóli. Viðtöl við nemendur Viktoríu.