Hvað kostar verðbólgan?
Skuldir heimila á Íslandi nema um það bil 3000 milljörðum króna króna. Sú skuld er ekkert að minnka, hún er að stórum hluta verðtryggð og minnkar ekki á meðan hér geysar verðbólga. Það er því ekki skrýtið að aðilar vinnumarkaðarins hafi sameinast um að meginverkefnið sé að ná verðbólgunni niður þegar hvert prósentustig kostar íslensk heimili 30 milljarða á ári. Nú erum við aftur komin á þann stað að ímynda okkur að blessuð krónan hjálpi okkur við að leysa vandamál, sem hún sjálf veldur.
Augljósustu merki versnandi stöðu í þjóðarbúinu hafa verið þegar svonefndum tásumyndum hefur farið að fjölga á netinu. Því fleiri tásumyndir þess líklegra að verðbólga fari af stað og stýrivextir hækki. Landsmenn hafa undanfarna mánuði lesið rétt í stöðuna, hætt að taka myndir af tánum, og verðbólga farið minnkandi. En hvað þýðir eins prósent hækkun á verðbógu, og hvað væri hægt að gera við þann pening ef engin væri verðbólgan.
Nýlega bárust af því fréttir að kostnaður vegna leiðtogafundarins hafi verið tveir milljarðar króna. Að því er mér skilst þá var þar undirritaður einhver tímamótasamningur, auk þess sem íslenskir ráðamenn fengu gott tækifæri til að flaðra upp um erlenda ráðamenn, eftir ládeyðu í þeim efnum af völdum Covid. Engum datt í hug að spara, semja yfirlýsinguna í Word og undirskrifa hana í gegnum Auðkennisappið eins og okkur aumum almúganum er ætlað að gera. Ef við næðum verðbólgunni niður um þó ekki væri nema eitt prósentustig gætum haldið 15 svona þjóðarleiðtogafundi á ári og tekið fullt af fallegum fjölskylduljósmyndum af þeim.
Talið er að samráð skipafélaganna þar sem þau í samráði hækkuðu verð á flutningum til landsins, hafi kostað þjóðarbúið 60 milljarða króna, eða jafngildi tveggja 2% verðbólgu á ári. Svo virðist sem þar hafi verið framið rán á íbúum landsins um hábjartan dag. Peningum stolið sem heimilin hefðu örugglega getað nýtt á skynsamari hátt.
Alþingi hefur samþykkt uppkaup ríkisins á eignum íbúða í Grindavík, sem er gott mál og sýnir að við sem þjóð sýnum samstöðu og samkennd þegar kemur að náttúrvá. Komið hefur fram að kostnaður vegna þessa geti numið um það bil 60 milljörðum króna, eða því sem nemur tveggja prósenta verðbólgu á ári. Prósentutalan er ekki há, en upphæðin stór.
Það er ljóst að verðbólga á Íslandi er há, hærri en hún þyrfti að vera ef við lítum til þeirra ríkja sem við viljum bera okkur saman við. Það er því ekki skrítið að aðilar vinnumarkaðarins skuli sameinast um það markmið að ná henni niður. En væri hægt að haga málum öðruvísi. Að vera ekki alltaf á nokkurra ára fresti að berjast við draug sem þyrfti ekki að vera til staðar. Íslensku krónuna sem talið er að á hverju ári kosti íslensk heimili, fyrirtæki og launafólk í kringum eitt hundrað milljarða á ári, eða því sem nemur 3% verðbólgu á ári.