Hvað fengu fyrirtækin á Suðurnesjum í kvóta?
Ég hef nú ekki farið í nýja fiskveiðiárið en ætla aðeins að skoða fyrirtækin og hvað þau fengu í kvóta fyrir núverandi fiskveiðiár sem hófst núna 1. september síðastliðinn.
Byrjun í Grindavík en þar eru stærstu fyrirtækin. Þorbjörn ehf. í Grindavík fékk samtals úthlutað tæpum átján þúsund tonnum miðað við þorskígildi og skiptist þessi kvóti á frystitogaranna Hrafn Sveinbjarnarson GK og Tómas Þorvaldsson GK, togarann Sturlu GK og línubátinn Valdimar GK. Hrafn Sveinbjarnarson GK er með mestan kvóta, um sex þúsund tonn.
Vísir ehf. í Grindavík, sem gerir út þrjá stóra línubáta, er samtals með rúmlega tíu þúsund tonna kvóta miðað við þorskígildi og skiptist þessi kvóti á Fjölnir GK, Sighvat GK og Pál Jónsson GK sem er með mestan kvóta, eða tæp fjögur þúsund tonn.
Auk þess gerir Vísir ehf. út tvo krókabáta og fékk í krókakerfinu alls 1.763 tonna kvóta sem skiptist á Daðey GK og Sævík GK. Sævík GK fékk meirihlutann af þessum kvóta, eða um 1.119 tonn.
Stakkavík ehf. í Grindavík gerir einungis út báta í krókakerfinu og er með 1.735 tonna kvóta miðað við þorskígildi en það er einungis á Óla á Stað GK og Geirfugli GK.
Einhamar ehf. í Grindavík er með 3.475 tonna kvóta miðað við þorskígildi og deilist þessi kvóti á þrjá báta; Véstein GK, Auði Vésteins SU og Gísla Súrsson GK sem er með mestan kvóta, um 1.500 tonn.
Besa ehf., sem gerir út Dúdda Gísla GK, fékk um 687 tonna kvóta en báturinn er í krókaaflamarkinu.
Í Sandgerði er ekki mikið um útgerðir þó fiskvinnslur séu margar. Blakksnes GK, sem gerir út Huldu GK, fékk tæplega 700 tonna kvóta.
Í Garðinum er Nesfiskur ehf. og fékk fyrirtækið rúmlega tólf þúsund tonna kvóta og skiptist sá kvóti á dragnótabátana Sigga Bjarna GK, Benna Sæm GK og Sigurfara GK, togarana Sóley Sigurjóns GK og Pálínu Þórunni GK og frystitogarann Baldvin Njálsson GK. Siggi Bjarna GK er með mestan kvótann, eða um 2.500 tonn, en allir eru í sama kerfinu og fyrirtækið færir til kvóta eftir veiðum. Reyndar hefur Sóley Sigurjóns GK verið á rækjuveiðum í um sex mánuði á hverju ári og því lítið veitt af þessum kvóta. Frystitogarinn Baldvin Njálsson GK hefur verið á grálúðuveiðum.
Talandi um Nesfisk ehf. þá, eftir að hafa verið frá veiðum svo til allt ár, er Pálína Þórunn GK aftur komin á veiðar en gírinn fór í togaranum og er þónokkuð mikið verk að laga það, enda þurfti að losa aðalvélina og færa hana í lestina á togaranum til þess að komast að gírnum.
Í Njarðvík er Hólmgrímur með sína báta og fékk hann alls um tæp 370 tonn af kvóta sem eru á Halldóri Afa GK og Maroni GK. Reyndar er nú slæmt við þetta að Maron GK, sem á sér mjög langa sögu í útgerð á Suðurnesjum undir nöfnunum Maron GK, Þórunn GK og Ósk KE, að spilið bilaði í bátnum og þegar þetta er skrifað er ekki vitað hvað verður um bátinn.
Maron GK er einn af elstu stálbátunum sem eru gerðir út hérna á landinu en báturinn var smíðaður árið 1955 og reyndar er báturinn Grímsey ST frá Hólmavík líka smíðaður árið 1955, báturinn er því orðinn 68 ára gamall og saga hans er merkilegt gagnvart fiskveiðum, það verður seinni tíma verkefni hjá mér að reikna saman aflatölur um bátinn og jafnvel gefa það út.