Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Hvað á að gera við Maron GK?
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 24. nóvember 2023 kl. 06:00

Hvað á að gera við Maron GK?

Jæja, loksins komin brælutíð. Þessi nóvembermánuður er búinn að vera vægast sagt mjög góður því veður hefur verið gott og það gott að meira segja handfærabátarnir hafa getað róið. Reyndar hafa þeir ekki svo margir farið djúpt út, eins og út við Eldey þar sem helst er hægt að fá ufsa.

Þeir færabátar sem hafa róið eru til dæmis Agla ÁR með 1.8 tonn í þremur róðrum, Guðrún GK með 1.4 tonn í tveimur róðrum, Særós ST með 2.7 tonn í þremur, Hafdalur GK með 590 kíló í einni löndun, Dímon GK með 2,7 tonn í í þremur róðrum og Bliki KE með 331 kíló í einni löndun. Allir þessir bátar lönduðu í Sandgerði, síðan var Grindjáni GK með 823 kíló.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er búið að vera frekar rólegt yfir netaveiðunum því einungis hafa bátar á vegum Hólmgríms verið á veiðum en hann er með þrjá báta núna, leigir Friðrik Sigurðsson ÁR og síðan eru Addi Afi GK og Sunna Líf GK líka að veiða fyrir hann.

Stutt er í að Erling KE fari á veiðar því báturinn er kominn úr slipp eftir yfirhalningu og málningarvinnu. Erling KE liggur í Njarðvíkurhöfn og þar er líka bátur sem á sér mjög langa sögu í útgerð, ekki bara á Suðurnesjunum heldur líka á Íslandi. Þessi bátur er með skipaskrárnúmerið 363 og er búinn að vera í eigu Hólmgríms síðan 2007 og heitir Maron GK. Ákaflega fallegur bátur en það kom upp bilun í spilbúnaði bátsins í ágúst og hefur báturinn síðan legið við bryggju í Njarðvík og líklegast er tími bátsins búinn. Maron GK er einn af elstu stálbátum Íslands, hann er smíðaður í Hollandi árið 1955 og reyndar er annar bátar til á Íslandi sem er gerður út frá Drangsnesi og heitir sá bátur Grímsey ST. Ég á reyndar eftir að kanna betur hvor báturinn er eldri, Maron GK eða Grímsey ST. Maron GK kom fyrst til Sauðárkróks og hét þá Búðafell SU og var þar til 1965 þegar að báturinn var seldur til Grindavíkur og hét þá Hópsnes GK 77 til 1969 og síðan Hafberg GK til 1972. 1972 til 1975 hét báturinn Torfhildur KE . 

Báturinn yfirgaf Suðurnesin í smá tíma frá 1975 til 1980 þegar að hann hét Bjargey SH frá Rifi og síðan Þröstur ÍS frá 1980 til 1982. Báturinn kom aftur til Suðurnesja seint á árinu 1982 og hét þá Þröstur KE. Hann var með því nafni til 1991 þegar að Einar Magnússon keypti bátinn og þá fékk hann nafnið Ósk KE 5. Einar veiddi mjög vel á Ósk KE og náði stundum að veiða yfir eitt þúsund tonn á ári. Aðalveiðarfærið sem Einar var með á bátnum var net, nema yfir sumarið þegar að báturinn var á humartrolli. Nesfiskur keypti bátinn árið 2003 og var með bátinn til 2007 og þá hét hann Þórunn GK . 

Hólmgrímur keypti bátinn árið 2007 og þá kom nafnið Maron GK á bátinn og hefur haldist á honum síðan þá. Skipstjóri á Maroni GK var lengst af Birgir Sigurðsson eða Biggi eins og hann er kallaður.

Sem sé, 68 ára gamall bátur sem á sér stóra sögu í útgerð á Suðurnesjunum en hvað verður um bátinn? Að mínu mati ætti að varðveita bátinn, ekki að henda honum í brotajárn. Báturinn er jú einn elsti stálbátur landsins sem er í útgerð. Hann á sér mjög langa útgerðarsögu á Suðurnesjunum, hefur verið ákaflega fengsæll og farsæll alla sína útgerðartíð. 

Á Suðurnesjum eru núna tveir bátar varðveittir, báðir eru þeir eikarbátar. Baldur KE sem er við DUUS hús og Hólmsteinn GK sem er í Garðinum. Báðir þessir bátar er líka merkilegir. Baldur GK var til að mynda fyrsti báturinn á landinu sem hóf að stunda veiðar með tógi í staðinn fyrir stálvíra á dragnót. Hólmsteinn GK var einungis með tvö nöfn sína útgerðartíð og alla tíð gerður út frá Suðurnesjunum og var Sandgerði aðal löndunarhöfn bátsins.

Skipaskrárnúmerið 363, fyrrum Ósk KE, Hafberg GK, Hópsnes GK, Torfhildur KE og Maron GK á alveg heima í þessum hópi líka. Þó svo að báturinn líti ekki út eins og hann var upprunalega, er hann enn glæsilegur og Hólmgrímur hefur í þau 16 ár sem hann hefur gert út bátinn, hugsað mjög vel um hann.

Þannig að Einar og Hólmgrímur sem og fleiri, takið nú höndum saman og hendið bátnum uppá land, til að mynda við Byggðasafnið í Garðinum, þar myndi báturinn sóma sér mjög vel rétt hjá Hólmsteini GK.