Höfuðlaus her
Hver er stefna okkar yfirvalda vegna Covid-19? Er markmiðið að engin smit greinist á Íslandi? Eitt sinn átti að fletja kúrfuna og passa uppá álagið á heilbrigðiskerfið. Ekki lengur. Ef það á að loka okkur af þá þarf fólk að vita það. Persónulega myndi ég kjósa raunhæfar aðgerðir sem taka tillit til allra þátta en ástandið í dag er ruglingslegt.
Þær hörðu aðgerðir, lokanir og höft, sem voru sett hérna á í vetur/vor hafa nú þegar kostað þjóðarbúið hundruð milljarða. Þessar hörðu aðgerðir voru reyndar nauðsynlegar í vetur enda á þeim tíma vissu menn lítið um veiruna en síðan þá hafa menn öðlast meiri þekkingu, aflað sér nauðsynlegs búnaðar og lyfja. Já, og reynsla heilbrigðisstéttarinnar er mun meiri. Samstaða var góð í vetur með allar aðgerðir, sú samstaða er farin núna.
Núna eru rétt um 100 staðfest smit á landinu, einn á spítala en blessunarlega ekki alvarlega veikur. Vissulega getur það breyst hratt. Margir láta samt eins og himinn og jörð séu að farast við hvert einasta smit, sérstaklega fjölmiðlar. Hvar liggja mörkin? Hver er stefnan? Við hvað er miðað? Yfirvöld virðast ekki hafa hugmynd um það og eru alveg eins og höfuðlaus her en tala ítrekað um nýsköpun. Nýsköpunin hefur reyndar blómstrað hérna á síðustu árum en þá hjá ferðaþjónustunni, grein sem núna er slátrað.
Persónulega þá finnst mér að við verðum að virða veiruna án þess að ala á sífelldum hræðsluáróðri. Taka á þessum staðbundnu hópsmitum en reyna allt til þess að halda samfélaginu gangandi eins og hægt er hverju sinni. Við Íslendingar slökuðum allt of mikið á hérna um mitt sumar þegar við héldum að veiran væri farin, við þurfum að rífa upp sokkana en án þess að loka eða stúta hagkerfinu.
Smitum er vissulega að fjölga í heiminum, ekki síst vegna þess að umfang skimunar er miklu meira en í vetur. Það er óraunhæft að sitja og bíða eftir því að veiran hverfi. Ástandið mun því miður vara í einhvern tíma og því þarf að breyta þessum lífsstíl okkar til framtíðar hvað varðar skynsamlegar persónulegar sóttvarnir. Enda sýndi það sig í vetur að aðrir smitsjúkdómar ruku niður. Kynsjúkdómar ruku reyndar upp en er það ekki bara rómó?
En eitt er víst að það gengur ekki að loka sig inni, lífið þarf að halda áfram. Þær aðgerðir sem yfirvöld settu hérna á19. ágúst koma harkalega niður á atvinnulífinu á Suðurnesjum sem dæmi – en fátt heyrist frá þing- og sveitarstjórnarmönnum svæðisins. Þögnin er í raun ærandi. Get ekki beðið eftir bóluefni ... og næstu kosningum.
Ætla í golf, getur Gæslan ekki skutlað mér?