Heimanámsþjálfun: Framlag foreldra og/eða forráðamanna
Þá er ég komin að upphafinu með þessum skrifum mínum. Þið sem hafið fylgt mér frá upphafi vitið að þessi skrif fóru af stað vegna áskorana sem ég hafði fengið frá foreldrum/forráðamönnum sem óskuðu eftir því að ég myndi taka saman nokkur atriði sem myndu gagnast heima fyrir þegar kemur að þjálfun í námi, einmitt vegna þess að ég hef verið að taka að mér að aðstoða ákveðinn nemendahóp með heimanámsþjálfun.
Tilgangur skrifanna er tvíþættur af minni hálfu í því samhengi. Ég er að leitast við að svara tveimur spurningum:
1. Hvaða vitneskju og skilning þarf foreldri/forráðamaður að hafa um hugtök og aðferðir í námi til þess að aðstoða við heimanámsþjálfun?
2. Hvað getur foreldri/forráðamaður gert til þess að aðstoða barnið sitt í námi heimafyrir?
Á þessum tímapunkti myndi ég klárlega benda öllum foreldrum og/eða forráðamönnum á að framlag ykkar til barnsins ykkar í formi hvatningar og stuðnings í námi og námstengdum venjum mun skila sér til lengri tíma, til framtíðar! Þó svo þið náið ekki tökum á því að aðstoða barnið heima fyrir í sértækum námstengdum þáttum (t.d. reikna tiltekið stærðfræðidæmi, útskýra viðtengingarhátt þátíðar, o.s.frv.) þá getið þið búið til jákvætt og hvetjandi námsumhverfi heima. Það að vera til staðar fyrir barnið, sýna því stuðning og hvetja það áfram leiðir til árangurs í námi (Scholarly Research on what Aspects of Parent Support Affects Education).
Sú hugsun um að barn hafi stuðning og hvatningu heima fyrir í námi kemur djúpt úr mínu eigin hugskoti. Þaðan kom drifkrafturinn sem leiddi til þess að ég fór að aðstoða nemendur með heimanám. Reynslan hefur sýnt mér aftur og aftur að barn sem finnur fyrir stuðningi og hvatningu í námi upplifir að það skiptir máli, að framlag þess skiptir máli og að nám þess skiptir máli.
Við sem hlúum að börnum okkar og kennarar sem hlúa að nemendum sínum eru að sá fræjum. Það er mikilvægt að átta sig á því að nám er langtímaferli og að fræin sem við sáum uppskera börnin ekki fyrr en löngu seinna. Sama gildir um foreldrahlutverkið, við sjáum oft ekki afrakstur uppeldis okkar fyrr en börnin eru orðin unglingar og jafnvel fullorðin.
Einmitt um þessar mundir er elsta barnið mitt að ljúka grunnskólagöngu sinni eins og svo mörg önnur börn. Uppskeruhátíð margra þeirra fræja sem við hjónin sáðum fer fram núna. Nú bíðum við spennt eftir því að heyra hvort barnið okkar kemst í þann framhaldsskóla sem því langar helst að sækja. Við finnum fyrir þakklæti barnsins okkar núna! Það er núna sem barnið okkar er að átta sig á því að staðfesta þess og seigla í námi, ásamt staðfestu okkar foreldranna, að hafa staðið föst við bakið á barninu okkar og sagt við það: „Okkur er ekki alveg sama ...,“ þegar barnið okkar reyndi að komast undan hlutum í námi og notaði setningar á borð við: „Mér er alveg sama ...,“ er að skila sér.
Ég vil þakka öllum þeim foreldrum sem hafa sett sig í samband við mig eftir að þessi skrif hófust, sem og kennurum. Mér finnst gott að heyra reynslusögur af því hvernig ykkur gengur. Nám barna skiptir mig máli og í hvert einasta sinn sem ég tek við nýjum nemendahópi myndast tengsl sem leiða til þess að ég hlakka til að mæta til starfa á hverjum degi. Allir geta lært! Það er mikilvægt að trúa því og gefast aldrei upp. Ég segi alltaf: „Það er til lausn við öllum vandamálum, finnum hana eða búum hana til!“
Kæra foreldri og/eða forráðamaður, alls ekki ætlast til þess að skólinn sjái einn og eingöngu um nám barnsins þíns, framlag þitt er dýrmætt og skiptir öllu máli í framtíð barnsins þíns (um hlutverk foreldra grunnskólabarna er hægt að lesa sér meira til um í bókinni Skóli og skólaforeldrar eftir Nönnu K. Cristiansen).
Notum sumarið í lestur,
það skiptir máli!
Jóhanna Helgadóttir,
grunnskólakennari, mannauðsráðgjafi og verkefnastjóri.