Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Heimanámsþjálfun  – lestrarþjálfun
Mánudagur 7. desember 2020 kl. 10:00

Heimanámsþjálfun – lestrarþjálfun

Lestur er nauðsynleg forsenda til þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Lestur er tæki einstaklinga til að afla sér þekkingar, upplýsinga og nýta texta svo gagn sé af. Það er ekki að ástæðulausu að ríkið og sveitarfélögin gerðu með sér þjóðarsáttmála um læsi árið 2015. Þó svo við séum ekki öll sammála um þau próf sem lögð eru fyrir grunnskólanemendur til þess að kanna lestrarfærni þeirra og lesskilning, þá gefa þau engu að síður til kynna að þeirri tækni og færni sem lestur byggir á sé ekki á valdi allra nemenda til jafns. Það eru einnig aðrar upplýsingar um stöðu nemenda á næsta skólastigi, framhaldsskólastigi, hvað varðar hátt brottfall úr námi og önnur félagsleg staða ungs fólks, þá aðallega drengja, sem veldur áhyggjum vegna slakrar lestrarfærni.

Allt nám hefst með lestri og því tilvalið að skoða fyrst lestrarþjálfun barnanna okkar. Mig langar að byrja á því að fara yfir hagnýt atriði sem koma að lestrarþjálfun og okkur, foreldrunum/forráðamönnunum, sem lestrarþjálfarar og ábyrgðaraðilar á lestri barna okkar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mín reynsla er sú að lítið gagn sé af því að láta grunnskólanemendur lesa hverja bókina á fætur annarri í heimalestri og í yndislestri ef ekki er unnið markvisst með lesskilning og ritun samhliða. Rannsóknir styðja við þetta og má nefna ýmsar aðferðir sem hægt er að notast við til þess að efla lestrartækni, -færni og lesskilning. Árið 2010 kom út bók sem heitir Eflum lesskilning og gerir þessum aðferðum góð skil.

Heimalestrarþjálfun er hluti af daglegri heimanámsþjálfun og skulu nemendur lesa frá tíu til tuttugu mínútum heima eftir aldri. Eftir því sem ofar er komið í grunnskólakerfið getur heimalestrarþjálfun líka falist í því að lesa í efni í öðrum námsgreinum eins og í samfélagsfræði og náttúrufræði. Í Lestrarstefnu Reykjanesbæjar um heimalestur segir: „Nemendur í 1.–10. bekk lesa daglega heima og þeir sem ekki hafa náð viðmiðum lesa daglega fyrir kennara. Aðrir nemendur setji sér markmið um heimalestur í samráði við kennara. Foreldrar eru ábyrgir fyrir framkvæmd og skráningu.“ Allir grunnskólanemendur í Reykjanesbæ eiga því að lesa heima daglega og þetta er sú þjálfun sem við, foreldrar og/eða forráðamenn, getum öll lagt okkur fram um að sinna með börnum okkar í samráði við kennara þeirra. Við, foreldrar og/eða forráðamenn, fáum það hlutverk við upphaf skólagöngu barnsins okkar að vera einstakur lestrarþjálfi barnsins. Það er aldrei raunhæfur kostur að ætla að skólinn geti einn og sér veitt þá þjálfun sem barnið þarf í lestri. Lestrarþjálfun barns er sameiginlegt verkefni heimilis og skóla, alla skólagöngu barnsins. Lestrarþjálfun heima, maður á mann, er bæði nauðsynleg og dýrmæt þjálfun fyrir hvert barn. Færni í lestri kemur ekki af sjálfum sér, eins og með alla færni sem þarf að tileinka sér þá þarf að æfa sig. Börn eru jafn ólík og þau eru mörg og þar af leiðandi misjafnt hversu lengi þarf að þjálfa áður en barnið getur sinnt þessari þjálfun upp á eigin spýtur.

Hvernig sinnir foreldri/forráðamaður hlutverki sínu sem einstakur lestrarþjálfi barnsins? Við upphaf skólagöngunnar og fyrstu ár barnsins í skóla, með því að halda áfram að lesa fyrir barnið þó svo það sé byrjað að þjálfa lestur sjálft. Taka virkan þátt í lestrarþjálfun barnsins með því að hlusta á það lesa, kvitta fyrir heimalesturinn og hvetja það áfram. Spyrja barnið einfaldra spurninga úr lesefninu og hlusta af áhuga á svörin. Taka þátt í umræðunni og segja sína eigin skoðun. Velta fyrir sér innihaldi textans með barninu. Fara reglulega á Bókasafn Reykjanesbæjar með barnið og njóta þar innan um bækur og tímarit. Fá bækur að láni heim sem barnið getur skoðað og lesið heima. Öll börn í Reykjanesbæ fá frítt bókasafnskort. Hægt er að nálgast upplestur bóka frá Menntamálastofnun á vef þeirra og fá hljóðbækur að láni hjá Bókasafni Reykjanesbæjar.

Þegar barnið eldist og bækurnar verða lengri og flóknari þá skiptir miklu máli að halda samtalinu og umræðunni um lesturinn á lofti. Sýna barninu skilning þegar bókin breytist úr því að verða meiri texti og minna myndmál. Þá skiptir ímyndunarafl barnsins máli. Að barnið skapi sér sína eigin mynd af því sem það les. Það er ekki sjálfsagt að barnið búið yfir þessum hæfileika. Þar kemur lestrarþjálfinn sterkur inn. Hann getur skapað mynd af textanum með barninu með því að spyrja spurninga eins og: Hvernig heldur þú að húsið líti út? Hvernig er persónunni líst? Hvernig heldur þú að veðrið sé? Og svo framvegis. Það getur hjálpað að teikna upp myndir af atburðum og aðstæðum. Þegar vantar upp á skilning á texta er nauðsynlegt að fletta upp orðum og kanna merkingu þeirra, með svokölluðu orðarýni (útskýri það síðar í öðrum pistli). Íslensk nútímamálsorðabók hentar vel í það og er aðgangur að henni frír fyrir alla á netinu: https://islenskordabok.arnastofnun.is/ 

Á miðstigi vill það gerast að foreldrar sleppa oft taki á stuðningi við barnið sitt í lestri. Margir foreldrar telja að barnið sitt hafi náð lestrarfærninni og sé orðið fluglæst. Því fer fjarri lagi! Einmitt á þessum tímamótun þyngist lesturinn enn frekar með flóknari orðaforða og meiri ályktunarhæfni er krafist af barninu. Það er í höndum foreldra og/eða forráðamanna að halda utan um lestur barnsins og sjá til þess að barnið lesi daglega og vinni verkefni sem skólinn setur fyrir úr lestrinum. Barnið les sjaldnar upphátt í skólanum og samkvæmt Lestrarstefnu Reykjanesbæjar hættir nemandinn að lesa upphátt fyrir kennara sinn eftir 5. bekk. Því er lagt til að eftir 5. bekk lesi barnið að minnsta kosti fyrstu fimm mínúturnar af heimalestrinum upphátt fyrir lestrarþjálfara sinn og síðan sjálft í hljóði. Foreldri/forráðamaður kvittar fyrir lestrinum. Samtalið og umræðan um það sem barnið er að lesa er ennþá jafn mikilvægt og áður.

Sjálfstæði unglingsins skiptir hann miklu máli og þegar komið er á unglingastig eru oft gerðar þær kröfur til unglingsins, bæði af heimili og skóla, að hann sé fullfær um að sjá um lesturinn sjálfur. Það er alls ekki sjálfsagt. Unglingar eru misjafnir eins og þeir eru margir. Þeir hafa þörf fyrir staðfestingu, áhuga og hvatningu í lestri. Lestur unglingsins má nálgast eins og íþrótta- og/eða tómstundastarf. Lestur er þjálfun og það er æfingin sem skapar meistarann. Áhugi foreldra/forráðamanna á þessu stigi í lestrinum skiptir öllu máli. Haldið með barninu ykkar! Hvettu það til þess að lesa reglulega, hjálpaðu því að finna tíma til þess að lesa, fylgstu með árangrinum og hrósaðu þegar vel gengur. Foreldri/forráðamaður ber ábyrgð á því að unglingurinn sinn lesi heima daglega, vinni verkefni tengd lestrinum og kvittar fyrir lestrinum.

Jóhanna Helgadóttir
grunnskólakennari, mannauðs-ráðgjafi og verkefnastjóri.