Hálfleiksræða
Í flestum íþróttaleikjum er tekið hlé um miðjan leik. Hálfleikur. Þá fá leikmenn tíma til að kasta mæðinni og tími gefst til að skipuleggja seinni hálfleikinn. Sumir koma ótrúlega sterkir inn í seinni hálfleikinn, þrátt fyrir þreytu og jafnvel slakt gengi í fyrri hálfleik.
Það eru forréttindi að hafa alist upp í Keflavík. Margt sem ekki átti að vera hægt hefur samt gerst í fyrri hálfleik. Herinn fór. Gos á Reykjanesi. Farsími. Internet. Samfélagsmiðlar. Og það sem toppar allt. Rifist um kynfræðslu í beinni í sjónvarpinu. Heimsfaraldur. Hættiði nú. Ég fór til útlanda í fyrsta skipti tíu ára gamall. Í dag telst það mannréttindabrot ef börn hafa ekki fengið að njóta sólarinnar í suðrænum löndum fyrir tíu ára aldur.
Snemma í fyrri hálfleik göfgaði vinnan manninn. Með sama áframhaldi verður vinnan algerlega úr tízku undir lok seinni hálfleiks. Amma mín heitin kallaði það að vera móðins. Hver ætti að vita hvað það er? Í dag er neikvætt að vera jákvæður.
Hálfleikur lífsins er þegar maður stendur á fimmtugu. Í öllum nútíma þægindum og læknavísindum á maður að gera ráð fyrir því að verða 100 ára. En það er engin trygging fyrir því að fá að spila allan seinni hálfleikinn – og kannski engin ástæða til að fá að spila hann allan. Bara vera eins lengi inn’á og heilsan leyfir. Stundum er manni skipt út af til að breyta leikskipulagi en einnig var rauða spjaldið þess valdandi að seinni hálfleikurinn varð styttri en efni stóðu til.
Við lifum á hverjum einasta degi. Njótið ferðarinnar. Áfangastaðurinn skiptir ekki máli.
Margeir Vilhjálmsson.