Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Gettó
Mánudagur 1. febrúar 2021 kl. 20:45

Gettó

Það eru eingöngu þrjú sveitarfélög hér á landi sem taka á móti umsækjendum um alþjóðlega vernd og er Reykjanesbær eitt þeirra. Fjöldi þeirra einstaklinga/fjölskyldna sem sækja hér um þessa vernd er alltaf að aukast jafnt og þétt. Í stað þess að Útlendingastofnun leiti til þeirra sveitarfélaga sem taka ekki á móti einum einasta umsækjanda (þrýsti betur á þau sveitarfélög) þá heimtar stofnunin að Reykjanesbær bæti við sig rétt rúmlega 100 manns (úr 70 í 170) til þess að þjónusta! Þessu á að ná fram með mikilli frekju og yfirgangi, Reykjanesbær er jú bara ruslatunna í huga Útlendingastofnunnar (reyndar ríkisins almennt) og þrátt fyrir að önnur sveitarfélög víkist undan samfélagslegri ábyrgð þá á að pönkast á þeim sveitarfélögum sem þó leggja eitthvað til málanna. 

Hugmynd Útlendingastofnunnar er líka sú að gera smá „Getto“ upp á Ásbrú og hrúga þessum 100 einstaklingum í eina blokk. Líklega hafa þessir snillingar horft til einstaklega vel heppnaðrar tilraunar Svía í þessum málum á síðustu áratugum. Sveitarstjórnarmenn hérna hafa mótmælt en líklega nær þó stofnunin sínu fram á einn eða annan hátt grunar mig. Atvinnuleysið í Reykjanesbæ er vel yfir 20% (26% meðal kvenna) og álagið hefur bara stóraukist á heilsugæsluna, félagsþjónustuna, lögregluna og skólana svo dæmi séu tekin. Þrátt fyrir þessar nöturlegu staðreyndir þá ætlar hið opinbera að „berja“ á sveitarfélaginu með auknu álagi í þessum viðkvæma og erfiða málaflokki.  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Persónulega finnst mér að Reykjanesbær eigi að gera meira en að mótmæla í þessu tilfelli og hreinlega segja upp þeim samningi sem nú þegar er í gildi og felur í sér alþjóðlega vernd fyrir 70 manns. Stinga t.d. upp á að Garðabær taki við þessum samningi tímabundið því þar drýpur jú smjörið af hverju strái og nóg af félagslegum íbúðum til afnota. Hvað ætli stofnunin segi þá? Stóra spurningin í þessu er svo einfaldlega sú af hverju ætli fleiri sveitarfélög taki ekki þátt í þessu verkefni? Eflaust vegna þess að þetta er gríðarleg vinna og afar kostnaðarsöm, margir umsækjendur eru í viðkvæmri og erfiðri stöðu – en í stað þess að dreifa byrðunum þá lendir þetta á einungis þremur sveitarfélögum sem gengur aldrei upp til lengdar. 

Við eigum því að segja þessum samningi upp alfarið, þá kannski vaknar ríkið og fer að gera eitthvað róttækt í þessum málum. Það verður a.m.k. að gera eitthvað meira en berja bara í borðið. Þarna verða fleiri sveitarfélög að koma að borðinu því það er löngu orðið tímabært. 

Örvar Þór Kristjánsson.