Fulla ferð
Íslenska sumarið er svo sannarlega komið á fulla ferð og fólk er heldur betur að njóta sín í birtunni sem fylgir þessum árstíma. Tíminn er vel nýttur til þess að ferðast og sækja allskyns viðburði sem loksins eru haldnir án nokkurra takmarkana.
Ætla að nýta tækifærið og hrósa Grindvíkingum fyrir afar vel heppnaða sjómannadagshelgi. Fáir kunna að skemmta sér betur en Grindjánar, það er bara staðreynd! Gleðin skín úr hverju andliti þessa dagana og eðlilegt samfélag blómstrar á nýjan leik, eitthvað sem við tökum þó aldrei aftur sem sjálfsögðum hlut enda bitur reynsla síðustu tveggja ára kennt okkur það. Ekki einu sinni blessað lúsmýið getur tekið af okkur gleðina sem fullt frelsi hefur fært okkur. Vissulega skyggir það aðeins á gleðina að þegar haldið er í ferðalag þá er blessað eldsneytisverðið það klikkað að maður þakkar bara fyrir að ná yfir á dælu tvö eftir að hafa fyllt bílinn á dælu eitt. Matarkarfan hækkar svo í hverri viku og venju samkvæmt eru það hollar vörur sem hækka mest, óhollustan aðeins minna. Bara að halda bjórnum á viðráðanlegu verði þá reddast þetta allt.
Já, buddan er nokkuð fljót að tæmast um þessar mundir en við höfum það samt ansi gott. Ekkert toppar nefnilega íslenska sumarið og eftir erfið ár er hægt að njóta þess núna í botn. Bíð svo spenntur eftir flottustu hátíð landsins, Ljósanótt, hátíðin sem kveður sumarið sem er allt of fljótt að líða.
Gleðilegt sumar kæru lesendur, gangið hægt um gleðinnar dyr nú eða ekki. Því eins og góður maður sagði eitt sinn: „Fulla ferð.“