Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Fiskflutningar hefjast
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 16. september 2022 kl. 06:33

Fiskflutningar hefjast

Alltaf er maður á einhverju flakki.  Núna er ég staddur á Egilsstöðum eftir ferðalag að Fljótsdalsstöð og Kárahnjúkastíflu. Ég er nú reyndar ekki sá eini sem er á flakki því núna eru allir línubátarnir frá Suðurnesjum farnir á flakk og því er frekar tómlegt um að litast og þá sérstaklega í Grindavík því flestir línubátanna eru þaðan; t.d. Einhamarsbátarnir, Vísisbátarnir, Valdimar GK, sem er eini línubáturinn sem Þorbjörn ehf á og gerir út, ásamt Stakkavíkurbátunum.

Reyndar kom Sævík GK úr slipp núna fyrir nokkrum dögum síðan og hann fór einn línuróður frá Grindavík en hafði aðeins um tvö tonn úr þeim róðri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Flestir bátanna eru komnir norður og þá aðallega á Skagaströnd; t.d Daðey GK sem er komin með 75 tonn í níu róðrum og mest 10,6 tonn í einni löndun, Dúddi Gísla GK 30 tonn í fimm, Hópsnes GK 29 tonn í fimm en þessi bátur er á balalínu, Gulltoppur GK 23 tonn í fjórum róðrum og mest 7,8 tonn en hann er líka á balalínu og Óli á Stað GK byrjaði á Siglufirði en færði sig til Skagastrandar, er með 41 tonn í átta róðrum.

Í raun þá er fleira sem mælir með því að róa frá Skagaströnd en Siglufirði og þá aðallega út af því að vegurinn frá Hofsósi í Fljótin og þaðan að Strákagöngum er gjörsamlega handónýtur og stórhættulegur. Sem dæmi er vegurinn frá Hofsósi og að Fljótum mjög mjór og virkilega missiginn og þegar stórir bílar mætast þar er alveg farið út í sitt hvorn kantinn.  

Þó svo að það sé fín höfn á Siglufirði þá er vegurinn þangað hættulegur og því mun öruggara, aksturins vegna, að landa á Skagaströnd eða þá Sauðárkróki – því núna eru fiskflutningarnir byrjaðir og trukkarnir frá Jón og Margeiri í Grindavík ansi mikið á ferðinni að sækja fisk.

Nokkrir bátar eru reyndar fyrir austan og þá aðallega Einhamarsbátarnir og Margrét GK. Er þá enginn bátur að róa frá Suðurnesjum? Nú færabátarnir, nokkrir dragnótabátar og fáir netabátar.

Reyndar hafa dragnótabátarnir fiskað mjög vel og þegar þetta er skrifað er Sigurfari GK t.d. kominn með 140 tonn í sjö róðrum, mest 33 tonn í einni löndun og er aflahæsti dragnótabátur landsins.  Aðrir eru t.d Siggi Bjarna GK með 87 tonn í sjö róðrum. Benni Sæm GK 68 tonn í sjö róðrum, Maggý VE 55 tonn í sex róðrum og Ísey EA 52 tonn í sex róðrum. Allir bátarnir að landa í Sandgerði. Grímsnes GK er ennþá í slipp en Erling KE er kominn með 24 tonn í fjórum róðrum og Halldór Afi GK 14 tonn í sex róðrum.