Fátt í höfnunum á Suðurnesjum
Það er orðið frekar fáliðað í höfnunum á Suðurnesjum en þó aðallega í Grindavík því um miðjan maí var mikið um að vera þar en núna hafa svo til allir bátarnir sem voru á veiðum þar farið í burtu. Kristján HF, Sandfell SU, Hafrafell SU, Gísli Súrsson GK, Auður Vésteins SU og Vésteinn GK eru allir komnir austur.
Nokkrir bátar fóru yfir til Sandgerðis og gekk nú reyndar ágætlega þar á veiðum. Þeir fóru síðan norður til Siglufjarðar og þar eru núna Óli á Stað GK, Margrét GK og Hópsnes GK.
Ekki er nú hægt að segja að það sé einhver mokveiði þar því sem dæmi má nefna að Margrét GK landaði 6,2 tonnum í Sandgerði en fór síðan norður og landaði þar aðeins 3,2 tonnum.
Sjómaður sem var á þessu flakki sagði eitt sinn við mig að hann vildi nú samt sem áður vera sem lengst fyrir sunnan að vegna þess hversu dýrt er að flytja fiskinn á milli landshluta þarf aflinn hjá bátunum sem t.d. eru fyrir norðan að vera um 1,5 tonnum meiri en afli bátanna fyrir sunnan.
Reyndar eru ekki allir línubátarnir farnir, því Katrín GK og Dóri GK eru eftir og þeir voru að fiska alveg ágætlega frá Sandgerði. Var t.d. Katrín GK með fjórtán tonn í fjórum róðrum og Dóri GK með um sex tonn í tveimur.
Dragnótabátarnir hjá Nesfiski voru stoppaðir af í um tvær vikur en þeir máttu hefja veiðar aftur rétt fyrir vertíðarlokin 11. maí síðastliðinn. Er Siggi Bjarna GK með 139 tn, í sjö túrum og mest 27 tonn. Benni Sæm GK var með 138 tonn í sjö og mest 35 tonn og Sigurfari GK 127 tonn í sjö og mest 33 tonn. Aðalbjörg RE byrjaði í Sandgerði en fór síðan yfir til Þorlákshafnar og hefur landað 117 tonnum í þrettán róðrum.
Stóru línubátarnir eru að landa í sinni heimahöfn, Grindavík, en það fer nú að líða að því að þeir fari að stoppa en yfir sumartímann hafa stóru línubátarnir frekar lítið róið. Jóhanna Gísladóttir GK er kominn með 408 tonn í fjórum túrum, Páll Jónsson GK 375 tonn í fjórum, Hrafn GK 351 tn. í 4, Valdimar GK 296 tonn í fjórum og Sighvatur GK 284 tonn í fjórum túrum.
Ég minntist áðan á vertíðarlokin 11. maí. Undanfarin ár hef ég skrifað um og gefið út rit um vetrarvertíðir og hefur það verið þannig að fjallað er t.d. núna um vertíðina 2021 en til samanburðar eru farið 50 ár aftur í tímann og vertíðin 1971 skoðuð, ásamt nokkrum aukahlutum. Til dæmis er fjallað um hið hörmulega slys þegar Sigurfari SF fórst en það var á vertíð 1971 og var báturinn í mokveiði í apríl, líka er fjallað um loðnuveiðar árið 1971 og á vertíðinni 2021 er litið á togarana, 29 metra togbátana og smábátana sem náðu yfir 200 tonna afla. Viðmiðið á báðum árunum eru 400 tonnin.
Hægt er að panta ritið í síma, 6635575 (Gísli), 7743616 (Hrefna), netpóstur [email protected] eða þá senda skilaboð á facebook.
Eitthvað fór nú Hvítasunnuhelgin ruglingslega í mig, því ég ruglaðist á dögum og var of seinn að skila pistli og því var enginn pistill í síðasta blaði.