Enginn stór netabátur kominn til veiða
Helst að dragnótabátarnir séu að fiska vel þessa dagana
Varla fyrr búinn að hrósa því hvað október er góður að það byrja lægðir og erfitt tíðarfar frá því síðasti pistill var skrifaður. Tíðarfarið hefur nefnilega verið nokkuð erfitt upp á síðkastið og í þessari viku eru ekki margir dagar sem gefa á sjóinn.
Veiði bátanna er búin að vera mjög misjöfn og ef við horfum bara á bátana sem róa frá Suðurnesjum þá eru það helst dragnótabátarnir sem hafa verið að fiska nokkuð vel. Siggi Bjarna GK er með 141 tonn í fjórtán, Benni Sæm GK með 113 tonn í tólf, Maggý VE 87 tonn í fjórtán og Sigurfari GK 84 tonn í þrettán.
Þessi fjórir bátar eru skiptir því að tveir þeirra, Siggi Bjarna GK og Benni Sæm GK, eru að veiða í Faxaflóanum og hinir hafa verið á miðunum út frá Sandgerði, eins og á Hafnarleir.
Ennþá er enginn stór netabátur kominn á veiðar hérna. Erling KE er ennþá í slipp, Grímsnes GK og Langanes GK eru báðir á ufsanum og gengur vel hjá þeim. Grímsnes GK komið í 148 tonn og Langanes GK 103 tonn, báðir í sjö róðrum.
Netaveiði í Faxaflóa er búinn að vera mjög treg og stærsti báturinn, Maron GK, er búinn að þvælast víða um flóann, allt frá miðunum útaf Akranesi og út í miðjan Faxaflóa. Hefur báturinn landað 54 tonnum í sextán róðrum, mest aðeins 4,9 tonn eða 3,3 tonnum að meðaltali í róðri.
Sunna Líf GK reyndi fyrir sér með netin út frá Stafnesi og gekk það nokkuð vel, var með um fimm tonn í fjórum róðrum. Guðrún GK hefur verið með netin við Garðskaga og landað 20 tonnum í sautján róðrum, Bergvík GK 7,2 tonn í fjórum, Halldór Afi GK 30,6 tonn í sautján og mest 5,2 tonnum. Hraunsvík GK er búinn að vera í Grindavík og er eini netabáturinn sem rær þaðan, hann hefur landað sautján tonnum í sjö róðrum, þar af 7,6 tonnum í fimm róðrum í Grindavík.
Línubátarnir sem hafa róið frá Sandgerði hafa fiskað nokkuð vel þá daga sem hefur gefið á sjóinn. Aflinn hefur ekki farið undir 100 kíló á bala og upp í tæp 200 kíló á bala, sem er nokkuð gott. Katrín GK er með 20 tonn í sex róðrum, Gulltoppur GK með 26 tonn í sex, Guðrún Petrína GK 5,5 tonn í einni löndun í Sandgerði og Alli GK 10,6 tonn í fjórum róðrum.
Netakallinn byrjar vel á línu
Alli GK er í eigu Blikabergs ehf. en það fyrirtæki er í eigu Sigurðar og Gylfa fótboltamanns sem eiga og reka fiskverkun í Sandgerði. Núna hefur báturinn verið leigður til Stakkavíkur og ný áhöfn er kominn á bátinn. Ívar Þór Erlendsson er tekinn við bátnum en hann hefur verið meiri netakall heldur en línukall. Fyrsti róður Alla GK undir skipstjórn Ívars var núna þegar þessi pistill var skifaður og var aflinn um þrjú tonn á 24 bala. Nokkuð góð byrjun.
Annars er að fjölga í netabátunum því báturinn Birna GK bætist bráðlega í hópinn. Birna GK er ansi þekktur netabátur því í yfir 20 ár var báturinn gerður út frá Hafnarfirði og hét þá þar Íslandsbersi HF og réri báturinn alltaf á netum. Báturinn var seldur til Sandgerðis fyrir um tveimur árum síðan og hefur stundað handfæraveiðar. Bátnum var hent í slipp núna í vikunni og kom til Sandgerðis þegar þessi pistill var skrifaður og verið er að græja hann á netin.