Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Enginn netabátur er á veiðum frá Suðurnesjum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 19. júlí 2024 kl. 06:01

Enginn netabátur er á veiðum frá Suðurnesjum

Þá er júlímánuður kominn í gang og veðurfarslega séð ber ennþá lítið á því að það sé sumar, frekar kalt búið að vera undanfarið. Það er frekar rólegt yfir öllu nema að strandveiðibátarnir nýta þessa fáu daga sem eftir eru af vertíðinni til þess að róa, núna er ufsinn farinn að gefa sig meira og þeir strandveiðibátar sem hafa farið út að Eldey og þar í kring hafa veitt vel af ufsa.

Annars kom frystitogarinn Hrafn Sveinbjarnarsson GK til Grindavíkur núna í byrjun júlí með 702 tonna afla. Af þessum afla var mest af þorski, 159 tonn, 151 tonn af ýsu, 130 tonn af ufsa og 115 tonn af gullaxi. Sem sé nokkuð blandaður afli.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Baldvin Njálsson GK kom til Hafnarfjarðar með 944 tonna afla og þar var mest af ýsu, eða 600 tonn, 169 tonn af þorski og 39 tonn af karfa.

Núna í byrjun júlí hafa báðir togarar Nesfisks landað rækju á Siglufirði, Pálína Þórunn GK kom með 38 tonn og af því þá var rækja 19 tonn, Sóley Sigurjóns GK kom með 48 tonn og af því var rækja 27 tonn.

Aðalbjörg RE er ennþá alein á veiðum hérna fyrir sunnan og hefur landað núna í byrjun júlí 30 tonnum í fjórum róðrum, mest 8,5 tonnum í róðri. Eins og áður er mest af kola í aflanum því aðeins eru 3,3 tonn af þorski í aflanum hjá Aðalbjörgu RE.

Báðir stóru línubátarnir hjá Vísi hf. í Grindavík komu með afla þangað. Páll Jónsson GK kom með 90 tonn og Sighvatur GK kom með 133 tonn. Hjá Sighvati GK var mest af löngu eða 64 tonn og 22 tonn af keilu. Hjá Páli Jónssyni GK þá var mest af löngu, 37 tonn og 26 tonn af keilu.

Tveir Einhamarsbátar eru fyrir austan, Gísli Súrsson GK sem er með 34 tonn í fimm róðrum og Auður Vésteins SU sem er með 30 tonn í fimm róðrum.

Hulda GK er kominn til Skagastrandar og hefur landað þar 8,2 tonnum í tveimur róðrum.

Bergur Vigfús GK, sem er kominn á færaveiðar og að eltast við ufsann, kom með 3,3 tonn í einni löndun og af þeim afla var ufsi 1,7 tonn. Addi Afi GK sem er á strandveiðum er kominn með 3,5 tonn í fjórum róðrum og mest eitt tonn í róðri.

Annars núna það sem af er júlí þá eru fjórir strandveiðibátar komnir með yfir fjögur tonn og allir eiga það sameiginlegt að hafa náð töluvert af ufsa líka, hæstur núna er Dímon GK með 4,4 tonn í fimm róðrum og mest 1,3 tonn í róðri. Stakasteinn GK er með 4,3 tonn í fimm róðrum. Arnar ÁR, sem rær frá Sandgerði, er með 4,2 tonn í fjórum róðrum og af þeim afla er ufsi tæpt eitt tonn, Snorri GK með 4 tonn í fjórum róðrum og mest 1,8 tonn í róðri en hann hefur verið ansi seigur hann Gísli sem er með Snorra GK að veiða ufsa því af þessum fjórum tonnum sem báturinn hefur veitt er ufsi 1,3 tonn.

Enginn netabátur er á veiðum frá Suðurnesjum og óljóst í raun hversu margir bátar munu verða á netum því ekki er vitað hvað Hólmgrímur gerir varðandi útgerð sína en hann hefur gert út netabáta ansi lengi og var á síðustu vertíð með Friðrik Sigurðsson ÁR á leigu, ásamt því að Sunna Líf GK, Addi Afi GK og Halldór Afi GK voru allir á netum fyrir Hólmgrím og hans fiskvinnslu.