Eltingaleikur við togara
Þá er desember kominn af stað og veðurfarslega séð hefur verið þokkalegt sjóveður og hefur veiði hjá bátunum verið nokkuð góð þá daga sem þeir hafa komist á sjóinn núna í byrjun desember.
Lítum á nokkra báta. Eins og staðan er núna þá eru allir línubátarnir í Sandgerði og er Addi Afi GK kominn með átta tonn í tveimur róðrum, Sævík GK sextán tonn í tveimur, Daðey GK 13,2 tonn í tveimur, Katrín GK og Geirfugl GK báðir með tæp ellefu tonn í tveimur róðrum – og reyndar þá munar ekki nema þremur kílóum á þeim. Katrín GK er með 10.777 kg og Geirfugl GK 10.774 kg.
Sigurfari GK byrjar desember nokkuð vel og er kominn með átján tonn í einni löndun. Benni Sæm GK og Siggi Bjarna GK báðir með tæp átta tonn í tveimur róðrum.
Grímsnes GK er ennþá að eltast við ufsann meðfram suðurströndinni og hann byrjar nokkuð vel í desember, með 25 tonn í einni löndun. Reyndar var Grímsnes GK með um 128 tonn í nóvember og veiðin byrjaði frekar dræmt hjá bátnum í nóvember en jókst síðan þegar leið á mánuðinn og einn túrinn var ansi góður.
Þeir fóru með níu trossur og voru með þær á Öræfagrunni. Þegar byrjað var að draga kom í ljós að ansi mikill fiskur var í trossunum og tók alls um tíu klukkutíma að draga þær. Þegar í Þorlákshöfn var komið þá vigtaði úr bátnum um 41 tonn – og má geta þess að öll fiskikör um borð voru full af fiski og restin af aflanum var settur í stíur og hillur sem eru í lestinni. Flestir bátanna í dag voru með stíur og hillur í lestunum en þegar leið á þá var mörgum bátanna breytt á þann veg að lestinni var breytt alveg í lest fyrir kör, t.d. eins og hefur verið gert með Langanes GK, hinn netabátinn sem Hólmgrímur gerir út. Sömuleiðis eru línubátarnir frá Vísi og Þorbirni í Grindavík allir með lestarnar þannig að þeir taka bara fisk í kör.
Af hinum netabátunum þá er Maron GK með 6,2 tonn í tveimur og Halldór Afi GK 3,9 tonn í tveimur, báðir að landa í Keflavík. Reyndar er Maron GK búinn að vera á veiðum utan við Sandgerði.
Sunna Líf GK er á skötuselsveiðum og er eini netabáturinn á Íslandi sem er á þeim veiðum. Er kominn með 490 kg í tveimur róðrum. Reyndar er nokkuð gott verð á skötuselnum á fiskmarkaði, eða um 400 krónur á kílóið, svo að þessi afli, þótt hann sé ekki meiri, er um 196 þúsund krónur. Í nóvember var Sunna Líf GK með 2,7 tonn af skötusel og miðað við verð á fiskmarkaði daginn sem þessi pistill er skrifaður þá var aflaverðmætið um 1,1 milljón hjá bátnum fyrir þennan afla sem nú bara nokkuð gott.
Annars fór ekkert á milli mála að glænýr frystitogari var að koma til landsins, því að fyrir tæpri viku síðan kom til landsins í fyrsta skipti nýr Baldvin Njálsson GK sem var smíðaður á Spáni fyrir Nesfisk í Garði. Þessi togari kemur í staðinn fyrir togara sem Nesfiskur hafði átt síðan árið 2005 og sá togari var smíðaður í sömu skipasmíðastöð og nýi togarinn. Þegar þetta er skrifað þá er Baldvin Njálsson GK farinn á veiðar í fyrsta túr sínum og verður sá túr stuttur því togarinn mun koma í land fyrir jólin og verður fróðlegt að sjá hvernig mun ganga í þessum fyrsta túr skipsins.
Ég og faðir minn, Reynir Sveinsson, fórum í smá eltingaleik við togarann og náðum að sjá hann fyrst við Reykjanesvita og þaðan við Hvalsneskirkju, ansi flott var að sjá skipið í þeim þunga sjó sem þar var. Utan við Garðinn sigldi togarinn smá hring og þeytti lúður sinn ansi oft og var vel tekið undir frá fjölda bíla sem var staddur við bryggjuna í Garðinum og við Höfuðstöðvar Nesfisks.
Nýi togarinn er 65,6 metra langur og 16 metra breiður. Hann er með 4.066 hestafla vél og tvær ljósavélar um borð, sú stærri er 810 hestöfl og sú minni er 229 hestöfl. Stór skrúfa er á skipinu, eða fimm metrar í þvermál, og með því að hafa skrúfuna svona stóra þá tókst að minnka vélina úr átta strokkum niður í sex og þar með minnka vélarrúmið og stækka lestina. Frystilestin í skipinu er á tveimur hæðum, því aflinn er settur á bretti í lestinni.
Reyndar mun togarinn ekki landa afla sínum á Suðurnesjum í framtíðinni, heldur í Hafnarfirði eins og gamli togarinn gerði alla sína tíð.
Baldvin Njálsson siglir framhjá heimslóðunum í Garði. VF-mynd/hilmarbragi.