Eldgosið í bakgarðinum
Það er stutt að fara fyrir okkur hér á suðunesjunum til þess að berja eldgosið augum. Sumir eru kannski orðnir leiðir á því og óska þess að því fari að ljúka. Svo eru aðrir sem fá aldrei nóg og leggja í hvern leiðangurinn af öðrum til að virða herlegheitin fyrir sér og þannig er komið fyrir undirrituðum. Það er magnað að sjá breytingarnar á landslaginu sem sjá má á milli ferða og að ekki sé minnst á hinar ýmsu kynjamyndir sem sjá má í hinu nýrunna hrauni sleppi maður ímyndunaraflinu lausu.
Það þarf þó ekkert ímyndunarafl til þess að sjá farvegina og tjarnirnar sem hraunelfan rennur um í þessari mögnuðu sýningu nátturunnar sem er meira að segja með hléum eins og tíðkast yfirleitt í mannanna verkum.