Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Ekkert nema urð og grjót
Föstudagur 1. apríl 2022 kl. 06:00

Ekkert nema urð og grjót

Umboðsmaður barna sendi nýverið mennta- og barnamálaráðherra mjög áhugavert bréf um þolpróf, eða svokölluð „píp-test“. 

Tilkynningar höfðu borist um að börn hefðu ofreynt sig í ákafa sínum til að gera vel og hefðu einnig fundið fyrir vanlíðan og kvíða tengdum prófinu sjálfu. Einnig hefðu börn upplifað niðurlægingu á því að falla snemma úr leik í prófinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við lestur bréfsins vakna upp margar spurningar. Ein til dæmis ef skipt væri út orðinu „þolpróf“ fyrir „stærðfræðipróf“. 

Fylgir því eitthvað minni kvíði hjá börnum í dag að fara í próf en það hefur gert síðustu áratugina. 

Ég man nánast til ekki eftir einu einasta prófi á grunnskóla-, framhaldsskóla- og háskólagöngu minni sem ég var ekki með kvíða, spenning, stress eða hvað þið viljið kalla það. Mér gekk almennt vel í þeim prófum þar sem ég hafði hagað undirbúningi vel. Það breytti ekki því að það var alltaf smá hnútur í maganum og spenna. Oft bara yfir því hverjar spurningarnar yrðu. Ef undirbúningur var slakur, var niðurstaðan eins. 

Sum próf voru voru löng og erfið – önnur stutt og létt. 

Mér eru sérstaklega minnistæð örpróf sem við tókum í grunnskóla. Áttum að læra utan að ljóð. Sum löngu gleymd og grafin. Önnur föst í minninu til lífstíðar.

Urð og grjót. Upp í mót. Ekkert nema urð og grjót. Klífa skriður. Skriða kletta. Velta niður. Vera að detta. Hrufla sig á hverjum steini. Halda að sárið nái beini. Finna hvernig hjartað berst, holdið merst, og tungan skerst. Ráma allt í einu í Drottinn. Elsku Drottinn, núna var ég nærri dottinn. Þér ég lofa því að fara, þvílíkt aldrei framar, bara ef þú heldur í mig núna. Öðlast lítinn styrk við trúna. Vera að missa vit og ráð, þegar hæsta hjalla er náð. (höf: Tómas Guðmundsson).

Ef umboðsmaður barna vill nú banna „píp-test“, þá hlýtur fyrir löngu að vera búið að banna utanbókarlærdóm á íslenskri ljóðlist. Hún greipist í huga manns í tugi ára. Stórhættuleg. Hvort tilgangurinn með utanbókarlærdómnum var að kenna manni ljóðlistina – eða einfaldlega tækni til að hjálpa manni að muna og læra texta, þá virkaði bæði. Maður kunni kannski ekki að meta það þá, en gerir nú. 

Þessar tilfinningar eru ekki eingöngu tengdar við próf. Ég fann fyrir þeim öllum líka í íþróttakeppnum. Ég finn ennþá fyrir þeim þegar ég keppi í golfi á gamals aldri. En þær virka líka þannig að þær skerpa hugann og hjálpa oft til við að ná betri fókus og einbeitingu að efninu. Þannig þurfa allir að læra að takast á við tilfinningar, hverjar svo sem þær eru. 

Tilfinningar verða alltaf til staðar. Þær hverfa ekki. Það mikilvæga er hæfileiki okkar til að takast á við þær. Þann hæfileika þarf að rækta frá barnsaldri.