Ekkert jákvætt við að loðnan sé komin við Suðurnesin
Ekkert jákvætt við að loðnan sé komin við Suðurnesin
Loðnan er komin. Það ætti nú að gleðja marga og sjómenn á bátum bæði frá Grindavík og Sandgerði segja að loðna sé komin á miðin þarna og það þýðir að þeir þurfa að fara utar eða dýpka á línunni.
Á árum áður var þetta mikil stemmning þegar loðnan kom. Loðna var fryst svo í frystihúsum víða um Suðurnes og bræðslurnar í Grindavík og Sandgerði höfðu nóg að gera við að bræða loðnuna sem kom á land – en því miður, þrátt fyrir að loðnan sé svo til í kálgörðunum hérna meðfram ströndinni þá skapar loðnan engar tekjur eða vinnu á Suðurnesjum – og er það frekar grátleg, sérstaklega ef horft er á það að þegar að loðna var fyrst veidd á íslandi þá var hún brædd á Suðurnesjum, nánar til tekið í Sandgerði. Núna er allri loðnunni sem er veidd siglt að mestu austur á Firði, til Hornafjarðar og Vestmannaeyja.
Já, frekar ömurleg staðreynd og hvað veldur? Fyrir það fyrsta varð gríðarlega mikill bruni í Fiskimjölsverksmiðjunni í Grindavík og var Samherji þá kominn inn í þann rekstur, við þann bruna eyðilagðist verksmiðjan og var að lokum rifin.
Í Sandgerði var Njörður HF með verksmiðju sem síðan var seld til Snæfells HF. Síldarvinnslan á Neskaupstað kaupir síðan Snæfell hf. og lokar verksmiðjunni í Sandgerði en hélt eftir Helguvík sem síðan lokaði einnig. Sem sé ekkert jákvætt við að loðnan sé komin hérna við Suðurnesin en við skulum engu að síður hressa þennan pistil upp og skoða hvernig loðnu löndun var háttað hérna á Suðurnesjunum fyrir tuttugu árum síðan, árið 2001, og skoðum tímabilið frá 1. janúar til 28. febrúar.
Byrjum í Grindavík, þar landaði t.d. aflaskipið Vilhelm Þorsteinsson EA 4.448 tonnum í tveimur löndunum. Oddeyrin EA 210 landaði ansi oft á þessum tíma í Grindvík, kom með 6.725 tonn í tíu löndunum. Þessi bátur var mjög þekktur í Grindavík því hann var gerður út þar í yfir tuttugu ár og hét þá Albert GK 31. Sunnutindur SU 59 landaði alls 5.961 tonnum af loðnu í sjö löndunum í Grindavík og eins og Albert GK. Þá átti þessi bátur sér langa sögu í Grindavík, hét Víkurberg GK 1 og var gerður út frá Grindavík í yfir tuttugu ár. Seley SU 210 landaði 2.700 tonnum í fjórum löndunum en þarna var þetta skip komið í eigu Samherja og ári síðar var honum lagt. Lengst af þá hét þessi togari Sölvi Bjarnason BA 65 en var breytt í nótaskip árið 1996.
Grindvíkingur GK 606 landaði 1.710 tonnum í tveimur löndunum, Þorsteinn EA kom með 3.657 tonn í þremur löndunum, Júpiter ÞH kom með 612 tonn í einni löndun. Alls eru þetta því 22.156 tonn sem komu á land í Grindavík af loðnu á þessu tímabili. Sandgerði, þar var Birtingur NK með 4.978 tonn í átta löndunum en þetta skip var lengst af Sighvatur Bjarnason VE. Þarna, árið 2001, var báturinn kominn í eigu Síldarvinnslunar. Súlan EA kom með 1.807 tonn í tveimur löndunum. Alls eru þetta því 6.785 tonn af loðnu sem komu á land í Sandgerði á þessu tímabili.
Síðan er það Helguvík en þar var komin nýjasta fiskimjölsverksmiðja á Suðurnesjunum í eigu Síldarvinnslunnar á Neskaupstað. Mikið var um að vera í Helguvík. Þar komu Svanur RE með 3.140 tonn í fimm löndunum, Þórður Jónasson EA kom með 2.294 tonn í fjórum, Huginn VE gamli 2.776 tonn í fjórum, Áskell EA 48 3.674 tonn í fjórum en þetta skip hét lengst af Hákon ÞH, Bjarni Ólafsson AK 2.148 tonn í þremur, Ísleifur VE 2.117 tonn í tveimur, Guðmundur Ólafur ÓF 15.81 tonn í tveimur, Heimaey VE 1 431 tonn í einni löndun en þessi bátur var um 40 metra langur. Alls komu því land í Helguvík 18.161 tonn af loðnu og samtals á þessu tímabili á Suðurnesjunum komu á land um 47 þúsund tonn af loðnu.
Núna, árið 2021, er loðnuaflinn samtals 0 tonn.
Gísli Reynisson
aflafrettir.is