Eins lengi og elstu menn muna
Oft er notað orðatiltækið eins lengi og elstu menn muna – og það má kannski nota þessi orð yfir þessa hörmulegu byrjun á árinu 2022 gagnvart sjósókn hérna frá Suðurnesjunum því veðráttan er búin að vera gríðarlega erfið og t.d. liðu ellefu dagar á milli þess að minni bátarnir úr Grindavík gátu róið. Kannski ein versta byrjun á vetrarvertíð, veðurfarslega séð, og elstu menn muna.
Ef við reynum í það minnsta að skoða eitthvað af aflatölunum þá nú bara afskaplega lítið að frétta af því. Helst að skoða stóru línubátana því þeir hafa getað verið á sjó í þessum haugasjó og brælum sem hafa verið.
Páll Jónsson GK, Fjölnir GK og Sighvatur GK hafa allir verið með línuna utan við Reykjanes og síðan á línuslóðinni utan við Sandgerði. Sighvatur GK er kominn með 177 tonn í þremur róðrum, Páll Jónsson GK 128 tonn í tveimur, Hrafn GK 105 tonn í tveimur og Valdimar GK 103 tonn í einum, síðastnefndu bátarnir lönduðu í Hafnarfirði.
Enn sem komið er þá er Óli á Stað GK eini 30 tonna báturinn sem er kominn suður til veiða en vegna veðurs hefur hann einungis komist í tvo róðra og landað fimmtán tonnum.
Einhamarsbátarnir eru ennþá fyrir austan nema að Gísli Súrsson GK lagði á sig 25 klukkustunda ferðlag norður fyrir landið og á Siglufjörð en hann er á leiðinni í Breiðafjörðinn.
Eins og fyrir sunnan þá hefur veiði bátanna sem hafa verið fyrir austan heldur ekkert verið neitt sérstök enda líka haugasjór þar og brælur. Best hefur kannski Huldu GK gengið því hún er komin með 39 tonn í fimm róðrum, með línuna í Breiðafirðinum.
Auður Vésteins SU með 37 tonn í sjö, Hópsnes GK 29 tonn í fimm á Skagaströnd en hann er á balalínu. Vésteinn GK 24 tonn í fimm róðrum og Gísli Súrsson GK nítján tonn í fjórum.
Yfir vertíðina hefur helsta veiðarfærið á vertíð verið net en vegna veðurs þá hafa netabátarnir svo til ekkert komist á sjóinn, nema Halldór Afi GK byrjaði ansi vel, komst í átta tonn í einni löndun frá Sandgerði en fór síðan í Faxaflóann þar sem veiðin hefur verið treg.
Grímsnes GK fór í ufsann á Selvogsbankann en veiðin þar var lítil, aðeins 4,4 tonn í einni löndun. Báturinn er núna kominn í Njarðvík.
Í síðasta pistli var fjallað um að eldur hefði komið upp í Erlingi KE þar sem hann lá í Njarðvíkurhöfn og tjónið það mikið að báturinn fer ekki meira á veiðar.
Um 1.500 tonna kvóti er óveiddur á Erlingi KE og strax var hafist handa við að finna annan bát til að koma í staðinn fyrir Erling KE. Að leita að öðrum netabáti var kannski ekki svo auðvelt því ef tekinn er hringur í kringum Ísland þá er lítið um svona stóra stálbáta á lausu til þess að fara að stunda netaveiðar.
Reyndar þurfi Þorsteinn Erlingsson, eigandi Saltvers, ekki að leita langt því Hólmgrímur, sem gerir út Maron GK, Halldór Afa GK og Grímsnes GK, átti í geymslu í Njarðvíkurslipp netabátinn Langanes GK sem hafði síðast landað afla í júlí árið 2021.
Sá bátur er að öllu tilbúinn til veiða og endirinn var sá að Langanes GK var leigt og mun koma í staðinn fyrir Erling KE núna á vertíðinni.
Eftir vertíðina þá mun verða tekinn ákvörðun um hvort að Saltver muni kaupa Langanes GK. Nokkur munur er á bátunum og þá aðallega stærðarlega séð. Erling KE er 40 metra langur en Langanes GK 35 metra langur. Erling KE er 7,2 metra breiður en Langanes GK 6,7 metrar. Aftur á móti er Langanes GK nýrra, Erling KE er smíðað árið 1964 í Noregi en Langanes GK er smíðaður 1972 í Garðabæ.
Eitt er þó víst að áhöfninn á Erling KE er að fá ansi góðan bát því Hólmgrímur er þekktur fyrir að hugsa mjög vel um bátana sína og Langanes GK er þar enginn undantekning.